29.12.2012 | 16:48
Ríkisstjórnin kýs átök þó friður sé í boði
Ég hlustaði rétt gær á ákaflega áhugavert viðtal við þá Þorstein Pálsson fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins og Svavar Gestsson fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins. Þar lögðu þeir meðal annars mat á þau miklu átök sem eru nú uppi í íslenskum stjórnmálum og báru saman við hinar pólitísku aðstæður sem eru í norrænum ríkjum svo sem Danmörku og Svíþjóð.
Þorsteinn Pálsson lýsti því hve vinnubrögð stjórnvalda hér á landi eru gjörólík því sem við sjáum á Norðurlöndunum.
Þetta var fróðlegur samanburður, enda þekkja báðir vel til norrænna stjórnmála, eftir áralanga stjórnmálareynslu og sendiherrastörf í framangreindum ríkjum.
En hver er munurinn á stjórnmálum í þessum frændríkjum og hér á landi? Þar eru að sönnu minni átök. Og hvernig skýrðu þeir þá staðreynd? Jú með því að ríkjandi stjórnvöld á Norðurlöndunum hverju sinni, reyni að ná samkomulagi fyrirfram um stjórnarmálefnin og að minnsta kosti málsmeðferðina. Þannig verði til það sem á útlendum tungum er nefnt consensus; pólitísk samstaða.
Þetta er auðvitað víðs fjarri því sem við þekkjum hér á landi. Núverandi ríkisstjórn er eins fjarri þessari hugsun og mögulegt er. Það er ekki að undra. Hún er bókstaflega búin til á grundvelli átaka. Átökin eru þess vegna hennar fylgikona. Hún kýs ætíð átök; og það jafnvel þó friður sé í boði.
Forystumenn hennar litu á það sem sitt sögulega hlutverk að breyta í mjög mörgum atriðum ýmsum megingildum sem hér hafa verið við lýði. Gleymum því ekki að til þess var sérstaklega skírskotað að nú hefði sest að völdum fyrsta hreinræktaða, tæra vinstri stjórnin, sem gegndi þar með tilteknum sögulegu hlutverki og sem beinlínis kallaði á átök. Það var síðan boðað og efnt til átaka við allt og alla í kjölfarið.
Dæmi um hvernig ríkisstjórnin kýs alltaf átök
Vinubrögð núverandi ríkisstjórnar eru svo gjörsamlega á skjön við þá lýsingu sem Svavar Gestsson gaf okkur af verklagi stjórnvalda á Norðurlöndunum. Annað er uppskrift að átökum, en hitt að samstöðu.
Rifjum upp nokkur af helstu málum ríkisstjórnarinnar og hvernig staðið var að undirbúningi þeirra.
- Var gerð tilraun til þess að mynda pólitíska sátt um hvernig staðið yrði að uppbyggingu og viðreisn efnahagslífsins? Nei svo var ekki
- Var reynt að skapa samstöðu um uppbyggingu atvinnulífsins? Nei alls ekki.
- Var ráðist í endurskoðun fiskveiðistefnunnar með víðtæku samráði? Nei. Þvert á móti var efnt til átaka og sú sátt sem hafði myndast var rofin og svikin af stjórnvöldum.
- Var farin sáttaleið varðandi rammaáætlun um nýtingu og vernd orkuauðlinda? Nei. Þar var horfið frá því sátta- og samráðsferli sem hófst árið 1999.
- Var leitað samkomulags um endurskoðun stjórnarskrárinnar? Nei. Ríkisstjórnin kýs átök um stjórnarskrána og gerir lítið úr öllum athugasemdum sem komið hafa fram við frumvarp hennar að nýrri stjórnarskrá.
- Er reynt að skapa samstöðu um aðildarumsóknina að ESB? Nei. Allir vita að þar er farið fram með hnefann á lofti og haft í hótunum við þá sem voga sér að æmta eða skræmta.
- Fylgir ríkisstjórnin samráðs eða samningaleið við verkalýðshreyfinguna eða atvinnulífið? Nei það er skollið á hreint stríð, sem ríkisstjórnin hóf á hendur þessum aðilum.
- Hefur verið leitað samkomulags eða samstarfs við stórar útflutninsgreinar á borð við ferðaþjónustu eða stóriðju? Nei. Þvert á móti þá hafa allir samningar verið sviknir sem hafa verið gerðir og rekstrarumhverfi þessara greina gjörbreytt undirbúningslaust og án samstarfs.
Þetta er ekki í anda hins norræna þjóðfélagsmódels, sem þeir Þorsteinn Pálsson og Svavar Gestsson útlistuðu svo ágætlega í gær í útvarpinu. Samt kallar ríkisstjórnin sig norræna velferðarstjórn. Sá pólitíski merkimiði er fyrir löngu orðin hreint skrípa-hugtak og væri fyrir vikið ekkert annað en aðhlátursefni, ef tilefnið væri ekki jafn alvarlegt og raun ber vitni um.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook