31.12.2012 | 12:59
Núna er komið að okkur
Eftir reynsluna af óveðrinu sem hefur gengið yfir norð vestanvert landið undanfarna daga og nú þegar yfir stendur sala á flugeldum hjá björgunarsveitunum, er hollt að við minnumst mikilvægis björgunvarsveitanna um allt land. Við skulum núna beina viðskiptum okkar til þessa óeigingjarna fólks, sem hefur síðustu daga sem endranær staðið vaktina og lagt sinn ómetanlega skerf af mörkunum til þess að tryggja öryggi okkar.
Við getum alltaf reitt okkur á björgunarsveitirnar
Hversu oft höfum við ekki heyrt af útköllum björgunarsveitanna við erfiðar aðstæður, til þess að aðstoða fólk? En þá skulum við líka minnast þess að miklu oftar eru björgunarsveitirnar ræstar út án þess að við höfum um það hugmynd. Þetta dugmikla fólk vinnur sitt ómetanlega samfélagslega verkefni af trúmennsku og án þess að það veki endilega athygli í umfjöllun fjölmiðlanna.
Jafnt til sjós og lands, á nóttu sem degi, á hátíðardögum sem á virkum vinnudögum, er stór hópur fólks reiðubúinn til þess að leggja á sig ómælda sjálfboðaliðsvinnu í þágu okkar allra.
Nú er hins vegar komið að okkur. Stærsti hluti fjármögnunar björgunarsveitanna fer fram í gegn um flugeldasöluna fáeina daga fyrir áramótin. Það er því gríðarlega mikið í húfi fyrir björgunarsveitirnar og þar með fyrir okkur sem samfélag, fyrir öryggi okkar allra að við leggjum okkar af mörkunum. Það getum við gert með því að kaupa flugelda af björgunarsveitunum út um allt land.
Við skulum ekki gleyma einu. Það er fjarri því sjálfgefið að eiga svona úrvalslið fólks um allt land, sem er til þess albúið að leggja samborgurum sínum svona gott lið, eins og björgunarsveitirnar gera. Ég gæti best trúað að þetta sé nánast einsdæmi í heiminum. Víða um land og álfur eru ræstar út hersveitir þegar mikið bjátar á til þess að aðstoða fólk í nauðum. Við reiðum okkur hins vegará net sjálfboðaliða.
Við getum alltaf treyst á þá. Þeir þurfa núna að treysta á okkur. Stöndum undir því trausti.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook