Það þarf mikillar fundvísi við

 

Það er kallað að berja hausnum við steininn þegar menn halda einhverju áfram af fullkominni þrákelkni, en í tilgangsleysi. Ekki telst það gott fyrir þann líkamspart sem toppstykkið er, en stundum er skeytingarleysið og forstokkunin svo ferleg að menn halda áfram þessu ógæfuverki, hvað sem öllu öðru líður.

Alþingi að störfum Enn á ný er lagt af stað með nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp. Þetta heitir að berja hausnum við steininn og er ekki mjög heilsusamlegt fyrir þennan líkamspart.

Ríkisstjórnin fer nú þessa leið með nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp. Þetta er þriðja tilraunin til þess að koma með fiskveiðistjórnarfrumvarp inn í þingið til afgreiðslu. Allir vita hvernig fór með fyrri sjóferðirnar. Þær enduðu með fullkomnum ósköpum. Jón Bjarnason og Steingríkmur J. Sigfússon urðu algjörir strandkapteinar og komust hvorki lönd né strönd.

En í laumi er samt hægt að dást svolítið að þrákelkninni í honum Steingrími að leggja nú frá landi enn á ný, með sitt pólitíska fley jafn ósjóklárt og hin fyrri, svo samlíkingunni um fyrri fiskveiðistjórnarfrumvörpin sé haldið.

Ég leitaði eftir því í þinginu í dag, hvað hefði nú helst breyst í málinu, frá því við skildum við það síðast. Ég rifjaði það upp að hvarvetna sem menn tjáðu sig um málið,fékk það hreina útreið. Gilti þar einu hvort í hlut áttu, sjómenn, útvegsmenn, fiskverkendur, sveitarfélög, samtök fiskvinnslufólks, svo ekki sé nú talað um fræðimennina sem skoðuðu málin fyrir atvinnuveganefnd Alþingis.

En lærðu menn ekkert af reynslunni? Var tekið tillit til ábendinga um það sem betur mætti fara? Ég kem ekki auga á það. Stjórnarliðarnir sögðu okkur að svo væri. Aðspurðir um dæmi, gátu þeir lítið týnt til. Við vorum því engu nær eftir umræður dagsins.

Sjálfsagt er að þeir sem frumvarpið lögðu fram fái að njóta vafans. Málið þarf greinilega mikillar rýni við. Nauðsynlegt er að fara vel ofan í það, bera það saman við fyrri afurðir og gefa sem flestum kost á að tjá sig. Betur sjá augu en auga og kannski sjá menn eitthvað sem við mörg hver sem tjáðum okkur í dag í þinginu komum ekki auga á.

Gagnrýnin á fyrri mál var býsna óvægin. Þau voru sögð vond fyrir þjóðarhag, drægju úr fjárhagslegri getu greinarinnar, setti fjölda útgerðarfyrirtækja á hausinn, kæmi í veg fyrir fjárfestingar, stuðluðu að lægri launum sjómanna og landverkafólks, rýrðu stöðu þeirra sem selja sjávarútveginum vöru og þjónustu, stórsköðuðu sveitarfélögin, veiktu sjávarbyggðirnar og stuðluðu að lægri tekjum ríkissjóðs til lengri tíma. Er þá ekki allt upp talið.

9878016-searching-answer Stjórnarliðar segja að margt hafi breyst til bóta´í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu. Verst er að þeir geta engin dæmi nefnd. Framundan er því mikil leit að betrumbótunum

Nú segja stjórnarliðar að brugðist hafi verið við með breytingum, sem um muni. En geta samt engin dæmi nefnt. Nú þarf því að skoða málin í þessu ljósi og átta sig á því hvort hið nýja frumvarp sé svona gott sem sagt er af stuðningsmönnum þess. Það væri alla vega vont ef möguleg glámskyggni okkar margra og skortur á fundvísi stjórnarliða, yrði til þess að framhjá okkur færi öll þessi mikla framför, sem nýja málið hefði tekið og sem kollvarpaði allri fyrri gagnrýni.

Okkar bíður því gríðarlegt verkefni sem í atvinnuveganefnd Alþingis sitjum. Og við þurfum bersýnilega mikla aðstoð til þess að komast til botns í þessu frumvarpi. Það virðist býsna djúpt á endubótunum, sem stjórnarliðar segja okkur að einkenni þetta þingmál. Við komum ekki auga á það, almennir þingmenn í stjórnarandstöðunni og stjórnarliðið virðist ekki geta hjálpað neitt til,miðað við viðbrögðin í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband