6.3.2013 | 11:56
„Óttalegur bullukollur ertu Bastían minn“
Hvernig ætli á því standi að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar kjósi að segja ósatt um stjórnarskrármálið og afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Bæði Össur Skarphéðinsson og Magnús Orri Schram halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekkert hafa með auðlindaákvæði að gera í stjórnarskránni.
Þegar maður les málflutning samfylkingaarmanna um stjórnarskrármálin, rifjast upp ummælin um Bastían bæjarfógeta í Kardemommubænum: Mikill óttalegur bullukollur ertu Bastían minn.
Þetta er ósatt og það vita þeir félagar báðir. Við höfum á hinn bóginn sagt að það ákvæði sem lagt hefur verið til af stjórnlagaráði og meirihluta stjórnskipunar og eftirlitsnefndar sé ekki brúklegt. Það er allt annað mál, eins og allir sjá. Einnig þeir tvímenningarnir, þó þeir kjósi að tala öðruvísi.
Tilraun var á sínum tíma gerð á kjörtímabilinu 2003 til 2007 að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarskrána. Þá strandaði það mál. Af hverju skyldi það nú hafa verið? Jú. Fulltrúar Samfylkingarinnar vildu ekki afgreiða málin, af því að einnig stóð til að fjalla um málskotsrétt forseta. Þá höfðu staðið yfir deilur um fjölmiðlafrumvarpið fræga og Samfylkingin tók sér stöðu með Baugsmiðlunum í því stríði, eins og allir muna.
En aðeins að auðlindaákvæðinu aftur. Þrjú dæmi um skýran vilja Sjálfstæðisflokksins í þessu máli má tilgreina. Auk marg ítrekaðra ummæla okkar um þessi mál.
1. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að skipan svo kallaðrar auðlindanefndar, sem í áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka, undir forystu Jóhannesar Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra. Sú nefnd lagði fram tillögu að auðlindaákvæði í nýrri stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þeirri niðurstöðu.
2. Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og Jón Sigurðsson þáverandi formaður Framsóknarflokksins lögðu fram frumvarp um auðlindaákvæði árið 2007, þegar ljóst var að hælkrókur Samfylkingarinnar var að leiða til þess að ekki yrði niðurstaða í stjórnarskrárendurskoðun á þeim tíma.
3. Sá sem hér stýrir tölvubendli leiddi starfshóp í sáttanefndinn, svo kölluðu, i um fiskveiðilöggjöfina árin 2009 –2010. Við urðum sammála um að auðlindaákvæði yrði sett í stjórnarskrá og vísuðum meðal annars í tillögu auðlindanefndarinnar.
Þetta sýnir með öðru að við höfum fullan vilja til að slíkt ákvæði sé í stjórnarskrá. En þá skiptir máli hvernig það er orðað. Um það stendur efnislega umræðan, en ekki tilraunir einstakra þingmanna og ráðherra til að blekkja og afvegaleiða umræðuna.
En framganga þeirra félaga minnir hins vegar á ummælin sem voru látin falla um þá frægu sögupersónu Bastían bæjarfógeta í Kardemommubænum, eftir einhver ummæli hans: Mikill óttalegur bullukollur ertu nú Bastían minn!
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook