1.3.2007 | 16:41
Árangursríkur dagur
1. mars 2007 er dagsetning sem skiptir máli. Nú í dag tekur gildi lækkun á matvörum og fleiri vöruflokkum svo um munar. Matvörur báru flestar 14 prósent virðisaukaskatt og nokkrar vörur voru í 24,5% flokki. Nú fara þessar vörur oní 7% flokk. Ennfremur verða vörugjöld af matvælum öðrum en sykri felld niður. Það verður með öðrum orðum ódýrara að versla í matinn. Þetta er skipulegasta og markvissasta ákvörðun stjórnvalda til lækkunar matarverðs, amk. á síðari árum Þetta er kjarabót í raun sem um munar og gríðarlegt átak til þess að bæta kjör almennings.
En það er ekki bara maturinn sem lækkar. Þessi lækkun nær líka til ferðaþjónustunnar, veitingarrekstrar, mötuneyta, fjölmiðlaáskriftar og húshitunarkostnaðar. Menningarefni mun ennfremur lækka í verði. Það á við um bækur og hljómdiska, en hið síðarnefnda hefur verið baráttumál tónlistarmanna um langt árabil.
Það er rétt að minna á að einmitt þessi skattalækkun var gagnrýnd af erlendum matsfyrirtækjum. Undir þá gagnrýni tók hin lánlausa stjórnarandstaða, sem hefur tamið sér að hirða upp allan gagnrýnisvott og gera að sínum, jafnvel þó svo sú gagnrýni verði ómarkviss og mótsagnakennd. Hún taldi þetta til marks um óábyrga fjármálastjórn.
Athyglisvert hefur það verið að í kjölfar þessarar verðlækkunar nú hefur verðvitund almennings skerpst greinilega. Fólk ræðir þessi mál meira en oft áður, menn eru betur meðvitaðir um verðþróun á hlutaðeigandi vöruflokkum og greinilegt að það hafði áhrif. Sú ætlaða hækkun á matarverði í aðdraganda virðisaukaskatts og vörugjaldalækkunar kom ekki fram í mælingu Hagstofunnar þegar hún var síðast gerð.
Það er afskaplega mikilvægt að unnt er að grípa til þessara aðgerða án þess að til kollsteypu komi hjá bændum. Það hefði hins vegar gerst ef farið hefði verið að ráðum Samfylkingarinnar nú í haust og sem flokksforystan hefur endurtekið nú nýlega. Þar getur að líta reginmuninn á aðgerðunum nú og tillögum Samfylkingarinnar.
Dagurinn í dag er til marks um góðan árangur ríkisstjórnarinnar í því verkefni að lækka matvælaverð. Árangur sem mögulegur varð vegna góðrar stöðu ríkissjóðs og ábyrgrar efnahagsstjórnar.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook