Stuðningur við knæpur í þágu byggðamála?!!

Þorp og smábæir í Bretlandi, sem hafa krá innan sinna marka  eru félagslega sterkari og atvinnulífið er þar öflugra en í bæjarfélögum sem eru án þeirra. Þetta er niðurstaðan í umfangsmikilli hagfræðilegri athugunsem unnin var af dr. Ignazio Cabras, hagfræðingi sem starfar hjá háskólunum í Northumbria og York.

 Þessi athyglisverðu tíðindi eru flutt í Daily Telegraph í dag, þriðjudaginn 15. október. Rannsóknin sem um ræðir stóð í eitt og hálft ár, 18 mánuði. Þetta er ein fyrsta vísindalega athugunin sem leiðir í ljós að knæpur efla bæjarbraginn og eykur samheldni.

Athugunin nær til bæjarbragsins í nær 2.800 smábæjum. Hún leiddi í ljós að þar sem knæpur fyrirfundust voru íbúarnir  40 til 50% líklegri til þess að taka þátt í bæjarhátíðum, fara á íþróttaleiki, sækja menningarviðburði og þess háttar auk þess sem atvinnulífið var öflugra.

Þetta er athyglisvert. Bæði út frá áfengispólitísku sjónarhorni, en einnig byggðarlegu. Fræðimenn hafa bent á að það sé ekki síst félagslegi þátturinn sem ráði miklu um framvindu bæjarfélaga á landsbyggðinni. Þar sem vistin er daufleg una íbúarnir sér verr. Svar okkar hefur þá ekki síst verið að tengja hinar minni byggðir, til þess að skapa forsendur fyrir eflingu hins félagslega hluta.

Þessi breska könnun bregður eiginlega nýju ljósi á þetta mál. Kráin, pöbbinn, er ekki lengur aðeins hluti af bæjarbragnum; partur af því mósíaki sem samfélag manna er. Hann getur verið forsenda fyrir því að búa til eftirsóknarverðan bæjarbrag.

Fræðimaðurinn sem stóð fyrir rannsókninni vakti athygli á að fækkun íbúa í bresku landsbyggðunum, ásamt versnandi samgöngumöguleikum,  gerðu þær minna aðlaðandi en stórbæina. Við þessar aðstæður gegna pöbbarnir stærra hlutverki. Þarna verður miðstöð mannlífsins, eins konar klakstöð sem getur af sér aukna virkni og þátttöku íbúanna, jafnframt því að skapa störf ( á pöbbunum) og fyrir viðskiptamenn þeirra.

Pöbbunum í Bretlandi hefur fækkað úr 69 þúsundum árið 1980 í 49 þúsund.Fræðimaðurinn hvetur til þess að stjórnvöld stuðli að því að þeir lifi áfram, í þágu dreifbýlisins.

Og nú vakna hinar íslensku spurningar:

1. Er hægt að heimfæra þetta upp á Ísland?

2. Nú er ljóst að pöbbar auka aðgengi að áfengi? Á þá að torvelda starfsemi þeirra til þess að draga úr aðgengi að áfengi?

3. Er ástæða til þess að hafa þessi mál í huga við mótun byggðastefnu?

4. Ætlum við sem aðhyllumst virka og skynsamlega byggðastefnu að hvetja stjórnvöld á sama veg og breski fræðimaðurinn, sem styður ákall sitt með fræðilegum rökum?

5. Eða væri þetta – eins og mig grunar satt best að segja – fullkomið tabú, bannhelgi í byggðaumræðunni eða svo sem í hvaða umræðu sem væri?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband