15.3.2007 | 10:16
ESB málin EKKI á dagskrá
Þráfalldlega hefur verið kvartað undan því að svo kölluð Evrópumál séu ekki nægilega á dagskrá. Að það ríki þöggunarstefna af hálfu stjórnvalda og til séu öfl sem vilji koma í veg fyrir að þessi mál séu rædd.
Þetta er þó tóm vitleysa. Evrópumálin eru mikið rædd. Meira rædd en lítill áhugi almennings á þessum málaflokki gefur tilefni til. En þessi meinti áhugi á upplýstri umræðu um þessi mál hjá áhugafólki um ESB aðild er oft meiri í orði en á borði.
Tökum dæmi. Hingað til lands komu fyrirsvarsmenn sjávarútvegsmála hjá ESB og héldu erindi á opnum fundi á Hótel Borg, 50 metra frá Alþingishúsinu. Enginn þingmaður utan Evrópustefnunefndar forsætisráðherra mætti til fundarins. Var þó ekki langt að fara né, um torleiði að ræða. Þetta segir sína sögu.
Í gærkveldi voru svo eldhúsdagsumræður. Evrópusambandsmál bar ekki á góma í þeim umræðum. Ekki í eitt einasta skipti. Var þó ekki nema sólarhringur frá því að stórmerk skýrsla Evrópustefnunefndar kom út, en að henni komu fulltrúar allra þingflokka. Ætla mætti að sú skýrsla hefði gefið tilefni til umræðu. Svo var ekki.
Gleymum því ekki að reynt var fyrir síðustu kosningar að koma þessu máli inn á dagskrá kosningabaráttunnar, af hálfu Samfylkingarinnar. Þeir drógu svo í land. Og nú er svo komið að þeir virðast hreinlega ætla að forðast umræðuna, markvisst og vísvitandi. Þegar fortíð þeirra í þessu máli er höfð í huga er það ofur skiljanlegt.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook