8.3.2007 | 08:57
Álitsgjafar í fílabeinsturnum
Það er nokkuð sérstakt til þess að vita hversu álitsgjafar og fjölmiðlungar af alls konar tagi eru fjarri hugsun þjóðarsálarinnar þegar kemur að umfjöllun um ýmis mál. Skemmst er að minnast síbyljunnar í fjölmiðlum gegn hvalveiðum, sem tröllreið fjölmiðlum daginn út og daginn inn. Allra handa bloggarar riðu röftum í baráttu sinni gegn hvalveiðum okkar Íslendinga, heil sjónvarpsstöð, - Stöð 2, - var undirlögð af fréttum í heila viku gegn ákvörðun stjórnvalda, álitsgjafar fjölmiðlanna töluðu hér um bil í einum kór gegn þessari ákvörðun. Og fyrir vikið kiknuðu hnjáliðir ístöðulítilla stjórnmálamanna.
En svo gerðist það óvænta, sé síbyljan í fjölmiðlum höfð til hliðsjónar. Skoðanakönnun var birt og í ljós kom yfirgnæfandi stuðningur almennings í landinu við ákvörðun okkar um að hefja hvalveiðar. Álitsgjafarnir voru með öðrum orðum víðs fjarri skoðunum almennings.
Nú er komið upp annað mál, þessu líkt. Við höfum heyrt síbyljuna gegn landbúnaðinum. Hver mannvitsbrekkan af fætur annarri hefur ráðist gegn landbúnaðinum, reitt hátt til höggs gegn þessari mikilvægu atvinnugrein og haft uppi ómerkilegan og ómálefnalegan áróður gegn íslenskum landbúnaði. Hefur það ekki verið sparað að halda fram röngum fullyrðingum um opinberan stuðning við atvinnugreinina, landbúnaði kennt um hátt matvöruverð og þar fram eftir götunum.
En sjáum nú til. Gerist það ekki að birt er skoðanakönnun sem kunngerð var á Búnaðarþingi á dögunum, þar sem fram kemur afdráttarlaus stuðningur alls almennings við landbúnaðinn. Þvert ofan í skoðanir spekinganna.
Þarna kemur það sem sé enn einu sinni í ljós. Mannvitsbrekkurnar, spunameistararnir, álitsgjafarnir, oflátungarnir og þeir sem einir þykjast vita eru orðnir berir að því að himinn og haf skilur á milli þeirra og almenningsálitsins. Það er greinilegt að úr fílabeinsturnum þeirra er lítið útsýni, nema oná eigin nafla.
Þetta er ótrúlegt. Það er eins og að úr fílabeinsturnunum berist boðskapur sem er víðs fjarri skoðunum almennings í landinu. Samt er haldið áfram að kenna og prédika og látið sem prédikararnir viti allt á milli himins og jarðar. En á meðan gefur almenningur lítið fyrir boðskapinn úr fílabeinsturnunum og sendir turnbúunum langt nef í gegn um skoðanakannanirnar.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook