Fylgi kvenna á flótta og rúinn fylgi karla

SamfylkinginFréttaskýring Morgunblaðsins í dag, þriðjudag á fylgisþróun stjórnmálaflokkanna er athyglisverð. Greining blaðsins byggir á nýjustu skoðanakönnun Capacent Gallup. Sérstaklega er athyglisvert að sjá að verulegur og merkjanlegur munur er á tryggð karla og kvenna gagnvart stjórnmálaflokkunum. Fylgi kvenna færist meira á milli flokka en fylgi karla. Sú var tíðin að hjón kusu jafnan eins. Því er löngu lokið og könnunin nú sýnir svart á hvítu að því fer víðs fjarri að karlar og konur séu samferða á stjórnmálavettvangnum.

Þó Samfylkingin njóti hlutafallslega meira fylgis á meðal kvenna en karla þá er staðan á meðal kvenna áhyggjuefni fyrir flokkinn. 44% kvenna sem kusu flokkinn í síðustu könnun ætla ekki að gera það núna. Það þýðir semsagt að nær önnur hver kona sem kaus Samfylkinguna fyrir fjórum árum gerir það ekki núna. Flokkurinn hefur samt lagt áherslu á femíniskt yfirbragð sitt. Formaðurinn er kona og var kynnt til leiks sem sérstakt forsætisráðherraefni. Nú upp á síðkastið hefur kona gengið undir konu hönd í hræðslukenndum skrifum til styrktar foringja sínum  og halda úti sérstakri heimasíðu í þessum eina tilgangi !

Engu að síður þyrpast konurnar út úr fylgismannahópi flokksins. Þetta hlýtur að vera flokknum þeim mun meira áhyggjuefni þar sem hann er algjörlega rúinn fylgi karla. Flokkur sem annars vegar er svona fylgisrýr á meðal karla og sem býr við svona litla tryggð kvenkjósenda sinna hlýtur að teljast í vanda. Það er sennilega skýringin á þessum örvæntingarskrifum sem birtast þessi dægrin frá flokksmönnum.

Þessi tilraun flokksins er svona álíka og hið misheppnaða útspil um hið Fagra Ísland. Í því tilviki sáu flokksmenn fylgið skríða yfir til Vinstri Grænna og bjuggu þá til umhverfisstefnu þeim flokki til höfuðs. Gallinn var bara sá að kjósendur flokksins út um allt land voru þessari stefnumótun ósammála og yfirgáfu flokkinn sem aldrei fyrr. Nú fara kvenkjósendur flokksins yfir á flokk þeirra kunnu femínista, Steingríms J., Ögmundar og Jóns Bjarnasonar. Þá verður spennandi að sjá hvernig það agn verður útbúið sem ætlað er að tryggja að fyrrverandi kvenkjósendur Samfylkingarinnar að reyna að stuðla að því að konur hætti að kjósa karlanna  í VG og snúi til baka, föðurtúna til.

Vandinn er bara sá að þrátt fyrir allt eru allir framboðslistar Samfylkingarinn nema einn skipaðir körlum í efsta sæti. Það er því hæpið að hið glataða kvennafylgi kjósi að snúa til baka. Og í þessari stöðu engist flokkurinn núna. Með innan við fimmtungs fylgi karla og kvennafylgið á harðaflótta burt frá flokknum, svo mjög að nær önnur  hver kona sem flokkinn kaus síðast hefur nú ákveðið að kjósa aðra flokka.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband