5.3.2007 | 17:50
Afskaplega skýrir kostir
Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýtur lang mesta trausts almennings þegar spurt er hvern fólk vilji sjá á stóli forsætisráðherra. Fréttablaðið spurði í skoðanakönnun á dögunum og var niðurstaðan afgerandi í þessa veru.
Þetta er athyglisvert en kemur ekki á óvart. Forsætisráðherra hefur notið mikils og óskoraðs trausts. Þessi könnun rímar við aðrar sem gerðar hafa verið. Ljóst er að forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa alls ekki þetta traust almennings þegar spurt er um hvern fólk vilji sjá í forystu ríkisstjórnar.
Það er í þessu sambandi eftirtektarvert að skoðanakönnunin viðheldur þeirri togstreitu sem varð opinber á milli formanns Vinstri grænna og Samfylkingar í frægum Kryddsíldarþætti Stöðvar tvö á gamlársdag. Þá kristallaðist vel og vendilega að Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. geta alls ekki unnt hvoru öðru þess að skipa sess forsætisráðherra. Könnunin nú er á þann veg að bæði munu halda áfram þessari valdabaráttu innan hins lánlausa Kaffibandalags. Þarna er enn eitt sprengipúðrið á átakavelli vinstri flokkanna.
Vandi Kaffibandalagsins felst náttúrlega í því að kjósendur hafa ekki trú á slíku stjórnarsamstarfi. Það er heldur ekki að furða. Við þekkjum það af reynslunni að þriggja flokka vinstri stjórnir eiga skammvinna ævi og lifa ekki út kjörtímabilið. Það er því ekki að undra að þeir kjósendur sem krefjast breytinga og þeir sem kjósa einhvern stjórnarandstöðuflokkana þriggja geta almennt ekki hugsað sér að sjá þá saman í ríkisstjórn.
Andspænis vinstri valkostinum er á hinn bóginn Sjálfstæðisflokkurinn, samstæður og undir öflugri og vinsælli forystu. Að því leyti eru kostirnir í vor býsna skýrir, sem kosningabarátta komandi vikna á eftir að leiða enn betur í ljós.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook