ÁFALL

Starfsstöð Marels á Ísafirði. Mynd bb.isLokun Marels á Ísafirði er áfall. Fyrst og fremst fyrir starfsmenn Marels á Ísafirði og fjölskyldur þeirra, en einnig fyrir samfélagið. Marel er burðarás í atvinnulífinu og það munar um minna fyrir samfélag á borð við Ísafjörð ef Marel hverfur úr bænum.

Marel keypti á sínum tíma fyrirtækið Póls sem fyrir löngu var orðið annálað fyrir frumkvöðulsstarfsemi sína á tilteknu sviði. Þessi hátækni starfsemi á Ísafirði hefur verið eitt af djásnum atvinnulífsins sem við höfum viljað byggja framtíð okkar frekar á. Fyrir vikið er þetta ennþá meira áfall.

Eins og Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar hefur bent á, skapast nú sú hætta að úr bænum hverfi einstök þekking, sem var ómetanleg fyrir samfélagið og vitaskuld fyrir þann atvinnurekstur sem þarna hefur farið fram.

Þessi ákvörðun Marels er að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins tekin á rekstrarlegum grunni. Vísað er til þess að fyrirtækið starfi á alþjóðavísu og hafi starfssemi út um allan heim. Þeir starfrækja 45 starfsstöðvar - af misjafnri stærð- í 22 löndum. Nú verður þeim fækkað um helming, eða þar um bil. Það er því ljóst að engar séríslenskar aðstæður, eða almenn rekstrarleg skilyrði hér á landi, valda þessari ákvörðun þeirra á Ísafirði. Starfsemi á vegum Marels verður aflögð í löndum með evrur, dollara og krónur og jafnt á hávaxta sem lágvaxtasvæðum.

En þetta breytir ekki veruleikanum. Tilkynnt hefur verið um lokun Marels á Ísafirði. Út frá því þurfum við að vinna.

Nú tekur við tími þar sem við þurfum að fara ofan í hvað hægt sé að gera. Fram hefur komið að hugsanlega megi vinna áfram amk. hluta þeirra starfa sem hafa verið hjá Marel á Ísafirði, á vegum annarra rekstaraðila, en á staðnum. Þetta þarf að athuga frekar. Til staðar er sérsniðið húsnæði, tækjabúnaður og þess háttar. Er hugsanlega hægt að nýta þessa aðstöðu og freista þess að lágmarka skaðann?

En umfram allt. Til staðar er hópur frábærs starfsfólks, einstök verkþekking, sem mikilvægt er að við reynum að tryggja að geti áfram verið til staðar á Ísafirði og hafi tækifæri til þess að vinna störf á sínu verksviði. Vegna starfsfólksins, vegna fjölskyldna þeirra, vegna samfélagsins og vegna þess að við trúum því að þannig megi tryggja mest og best til framtíðar þá miklu hagsmuni sem felast í því að starfsemin verði vestra, í þeim mæli sem unnt er.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband