Lægri verðbólga - betri lífskjör

peningarNú er það ljóst að verðbólgukúfurinn sem hér hefur verið, er að hjaðna. Aðgerðir ríkisvaldsins og Seðlabankans eru að hafa þau áhrif að smám saman dregur úr verðhækkunum. Landsbanki Íslands spáir því í nýju áliti sínu að verðlag lækki um 1 prósent á milli mánaða. Tillögur ríkisstjórnarinnar sem Alþingi hefur gert að lögum og fela í sér lækkun virðisaukaskatts á matvörum úr 14% í 7%, ásamt lækkun á vörugjöldum, munu leiða til þessa.

Þar með er lækkandi verðbólga í markvissu ferli. Bankinn spáir því að um mitt ár, eða í júní nk. verði verðbólgan komin niður fyrir verðbólgumark Seðlabankans. Það er mun fyrr en menn höfðu spáð, til dæmis á síðasta hausti. Þetta eru mjög góð tíðindi.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir lausatök í hagstjórninni. Þeim ferst, eða hitt þó heldur ! Við sjáum það þessi dægrin að aldrei líður sá dagur að flokkar og þingmenn stjórnarandstöðunnar taki ekki undir kröfugerð sem leiðir til aukinna ríkisútgjalda og slaka í hagstjórninni, sem virkar sem olía á eld. Það er átakanlegt að sjá væna frambjóðendur meðtaka gagnrýnislaust alla kröfugerð og gera hana að sinni. Þeir sem þannig haga sér eru ekki líklegir til þess að sýna þá festu sem nauðsynleg er í hagstjórn og við landstjórnina.

Kannski má skilja stjórnarandstæðinga þá sem þannig vinna að einu leyti. Þeir vita sem er að hinn mikli vöxtur hagkerfisins og tekjuaukning þjóðarbúsins gerir okkur kleyft að takast á við verkefni sem áður voru okkur ofviða. Aukin útgjöld til velferðarmála ásamt skattalækkunum til almennings og fyrirtækja og góð staða ríkissjóðs, sýnir okkur það svart á hvítu. Þeir telja því kannski að það sé allt í lagi að vera rausnarlegur á loforð og taka undir allar kröfugerðarhugmyndir; hvaða nafni sem þær nefnast.

Það er þó fullkomið ábyrgðarleysi. Kannski ímynda menn sér líka að slíkur málflutningur sé fallinn til vinsælda. En það er rangt mat. Almenningur sér í gegn um loforðaflauminn. Menn vita til hvers slíks leiðir. Því þó efnahagslífið sé sterkt, þá er auðvelt að rústa því með ábyrgðarleysi. Við þekkjum það úr fortíðinni. Vinstri stjórnir fyrri tíðar ættu að vera  okkur nægjanleg áminning.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband