12.2.2007 | 10:13
Ótrúleg sveifla
Tvær skoðanakannanir sem gerðar eru með um 5 daga millibili um afstöðu fólks til stjórnmálaflokkanna, draga upp gjörólíka mynd. Hver getur skýringin verið? Eru virkilega slíkar sveiflur í afstöðu fólks á milli þessara kannana að þær dugi til þess að skýra þennan mikla mun, eða er það eitthvað annað sem er hér á ferðinni?
Tökum fyrst fyrri könnunina, könnun Blaðsins frá 6. febrúar sl. Skv. þessari könnun er Sjálfstæðisflokkur með 45,4 prósent stuðning og eykur við sig fylgi. Framsókn á svipuðu róli og í fyrri könnunum með um 9 til 10 prósent. Vinstri grænir í sókn, með 23 prósent fylgi. Samfylking nánast í frjálsu falli komnir niður fyrir 20 prósentin ( 19,1%) og Frjálslyndir að dala mikið komnir ofan í 3 prósent.
En á sunnudaginn, 11. febrúar birti Fréttablaðið nýja könnun og þar getur að líta allt aðra niðurstöðu. Skv. þessari könnun styðja 37 prósent Sjálfstæðisflokk, Framsókn komin ofan í 4 prósent, Samfylking með 28 prósent, Vinstri Grænir með 23,7 prósent og loks Frjálslyndir með 7,3%.
Það er ljóst af þessu að það er himinn og haf á milli þessara kannana. Einungis í tilviki Vinstri grænna er staðan eitthvað svipuð í tilgreindum könnum. Sveiflan hjá Sjálfsæðisflokknum er 8 prósentustig og hjá Samfylkingu heil 9 prósentustig. Frjálslyndir fá ríflega 100 prósent meira fylgi í könnun Fréttablaðsins en hjá Blaðinu og Framsóknarflokkurinn með 40% þess fylgis í síðari könnuninni, sem flokkurinn fékk í þeirri fyrri.
Þessar sveiflukenndu niðurstöður verða tæplega skýrðar með skírskotun til einhverra pólitískra tíðinda, sem þarna áttu sér stað á milli kannana. Kaldhæðnir andstæðingar Samfylkingar segja að vísu að lítt hafi heyrst til forystumanna þess flokks síðustu dægrin og geti því skýrt fylgisaukningu flokksins á milli kannananna ! Það eru þó örugglega ýkjur.
Skoðanakannanir eins og þær sem Blaðið og Fréttablaðið gera geta verið afskaplega athyglisverðar, af því að þær mæla fylgi á mjög afmörkuðum tíma. Kannanir Fréttablaðsins hafa þannig stundum fært okkur ný pólitísk tíðindi. Nægir að nefna að sveiflan til Frjálslyndra sást fyrst í könnun blaðsins í haust, í kjölfar umdeilds máflutnings flokksins í málefnum innflytjenda. Gallup ( Capacent) mælir hinsvegar fylgið á heilum mánuði. En kannanir eins og blöðin tvö birtu, með lágu svarhlutfalli og gríðarlegri sveiflu á innan við viku, er ekki líkleg til að varpa skýrandi ljósi á stöðuna í stjórnmálunum. Við verðum því enn að bíða frekari mælinga.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook