5.2.2007 | 08:45
Helgi hinna miklu innanflokksuppgjöra
Nýliðin helgi var tími hinna miklu pólitísku innanflokksuppgjöra. Eigi færri en þrír forystumenn stjórnmálaflokka fóru í drottningarviðtöl í jafn mörgum dagblöðum til þess að gera upp innri mál flokka sinna. Það er athyglisvert hverjir þetta eru og hvar ástæða er talin til slíkra hreinlæatisaðgerða innanflokks.
Á laugardag birtust viðtöl við þær Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar í Fréttablaðinu og Margréti Sverrisdóttur fyrrv. framkvæmdastjóra Frjálynda flokksins í Blaðinu.
Viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu sneri mjög að innri málum Samfylkingarinnar, enda er þar tíðindasamt mjög, svo landsmenn vita. Slakt gengi í skoðanakönnunum, hið fræga útspil Jóns Baldvins ( sem einu sinni nefndi sig einhvers konar guðföður Samfylkingarinnar) og sú hrikalega staða flokksins að vera á pari við Vinstri Græna í fylgi, gerir það að verkum að forvitnilegt er að lesa viðtal við formann Samfylkingarinnar um þessar mundir.
Sama dag birtist viðtal við Margréti Sverrisdóttur, fyrrv. framkvæmdastjóra Frjálslyndra og varaformannskandidat í Blaðinu. Viðtalið var mikil útskýring á því sem gerst hefði og vörn fyrir stöðu hennar nú. Það var þó fyrst á bloggsíðu hennar sem hún kunngerði ákvörðun um sérstakt framboð sem hún myndi leiða ( ætli það hafi verið ákveðið í lýðræðislegu vali? ) og segir það verða hægra megin við miðju. Semsagt. Þessar hægri áherslur hafa ekki ennþá birst og komu amk. ekki fram í viðtalinu um helgina. Við hljótum því að bíða átekta og sjá þau áhersluatriði koma í ljós.
Loks er að nefna mikið uppgjörsviðtal í Morgunblaðinu við Guðjón A. Kristjánsson formann Frjálslyndra á sunnudag. Viðtalið var kynnt tveimur dögum fyrr og til þess vísað á forsíðu. Það viðtal er afar lýsandi fyrir þau gríðarlegu átök sem hafa staðið í þeim flokki og lyktaði með klofningi hans, þegar úr flokknum gengu einstaklingar sem hafa verið í forystu hans og ljáð honum styrk og tiltekna skírskotun frá stofnun. Það er ljóst af viðtalinu og aðdraganda klofnings Frjálslynda flokksins að flokkurinn og málflutningur hans breytist við þessi tíðindi.
Þessi viðtöl vörpuðu hver með sínum hætti nokkru ljósi á innanmein þeirra flokka sem í hlut eiga. Þau voru forvitnilegt uppgjör; ekki bara fyrir það sem þarna var sagt, heldur einnig vegna þess að þau leiddu í ljós hvar slíks uppgjörs var talin þörf um þessar mundir.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook