Þöggunarstefnan sýnir andlit sitt

SamfylkinginSíðasta vika hefur verið Samfylkingunni slæm. Það byrjaði með ræðu formannsins í Reykjavík þar sem gat að líta enn nýja yfirlýsinguna sem fékk flesta landsmenn til að sperra eyrun - af undrun. Síðan rak hvert annað. Fordæming Jóns Baldvins í Sifri Egils og óbein hótun frá honum um stofnun nýs stjórnmálaafls, af því að Samfylkingin dygði ekki til þeirra verka sem henni væru ætluð. Svo kom Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og fyrrv. formaður framkvæmdastjórnar flokksins og gagnrýndi Kaffibandalagið og málþófsæfingar Samfylkingarinnar í RÚV málinu.

Þetta er Samfylkingunni erfitt. Jón Baldvin hefur sérstaka stöðu innan Samfylkingarinnar; verið þar í raun á einhverjum hefðarstalli. Hann lagðist  og í víking í kjöri Ingibjargar Sólrúnar sem flokksformanns og hafnaði þar með fráfarandi formanni. Stefán Jón var sömuleiðis einn af liðsforingjum formannsins. Nú gagnrýna þeir hvorutveggja; taktík og málatilbúnað flokksins síns.

En þá  ber athyglisvert við, eins og Hrafn Jökulsson, fyrrv. ritstjóri Alþýðublaðsins bendir á í bloggi sínu á dögunum. Enginn hinna afkastamiklu bloggara úr þingliði flokksins æmtir, skræmtir, eða bregst til varnar. Svo telur hann upp skrif þingmanna samfylkingarinnar í kjölfar dóma Jóns Baldvins og Stefáns:  "Össur Skarphéðinsson skrifar um Frjálslynda flokkinn, Mörður Árnason um RÚV (nema hvað?), Björgvin G. Sigurðsson um þjóðlendur, Jóhanna Sigurðardóttir um verðtryggingu og Helgi Hjörvar um að nú séu jólin loksins liðin...", segir Hrafn á síðu sinni. Einungis Karl V. Matthíasson og Helga Vala Helgadóttir frambjóðendur Samfylkingarinnar skrifa flokki sínum til varnar. En þau eru náttúrlega að vestan.

Og svo var það annað. Í gær var í þinginu vakið máls á eindreginni skoðun Frjálslyndra í innflytjendamálum og sérstaklega spurt um afstöðu Samfylkingarinnar og  Vinstri Grænna til þess máls vegna meints samstarfsvilja stjórnarandstöðunnar. Það vantaði ekki að þingmenn flokkanna mættu í ræðustól. En einungis til þess að skauta framhjá því sem spurt var um.

Í síðustu viku talaði formaður Samfylkingarinnar um eitthvað sem hún kallaði þöggunarstefnu. Þar var átt við viðleitni til þess að sneiða framhjá umræðum til tiltekin mál. Hún hafði á röngu að standa í því tilviki sem hún nefndi, eins og ég sýndi fram á í bloggi gærdagsins.

En nú erum við búin að sjá þöggunarstefnu í raun. Hún gildir innan Vinstri grænna og Samfylkingar þegar í hlut eiga vinir þeirra í Frjálslynda flokknum og hún gildir þegar uppi er höfð hörð gagnrýni á flokkinn þeirra og sú gagnrýni kemur úr ranni forystumanna þeirra. Nú höfum við séð hvernig þöggunarstefnan lítur út og hvar og hvernig henni er beitt.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband