29.1.2007 | 10:37
Engin þöggunarstefna vegna ESB umræðna
Af hverju er sífellt verið að halda því fram að í gangi sé einhver þöggun gagnvart umræðum um Evrópusambandið og tengda hluti? Er eitthvað sem bendir til þess að einhverjir óskilgreindir vilji ekki að þau mál séu rædd?
Þessi kenning er algjörlega órökstudd. Hún er bara dæmi um pólitískar dylgjur.
Fyrir það fyrsta þá er það ekki á færi nokkurs manns að þagga niður umræður um stórpólitískt mál, sé á annað borð áhugi á að setja þau mál á dagskrá. Að ekki sé nú talað um ef slík mál séu borin fram af fulltrúum öflugra stjórnmálaflokka. Samfylkingin er áhugasöm um að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga vegna hugsanlegra aðildarviðræðna við ESB. Það er vandræðalaust fyrir flokkinn að setja slík mál á dagskrá sé til þess vilji.
Í annan stað, þá sjáum við af reynslunni að áhugi stjórnmálamanna og fjölmiðla á umræðum um ESB mál er umtalsverður. Skemmst er að minnast nýliðinnar umræðu um Evruna. Að þeirri umræðu komu fjölmargir. Fulltrúar úr atvinnulífi, stjórnmálum, verkalýðshreyfingu, fræðasamfélaginu og svo framvegis. Var þar ríkjandi einhver þöggunarstefna ? Öldungis ekki.
Í þriðja lagi. Nú um árabil hefur starfað sérstök Evrópustefnunefnd á vegum forsætisráðherra undir forystu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Í nefndinni sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Nefndin hefur beinlínis haft frumkvæði að því að efna til umræðna um tiltekin mál á þessu sviði. Enginn vafi er á því að frumkvæði nefndarinnar hefur styrkt umræðuna og gert hana málefnalegri og markvissari. Athyglisvert hefur verið að þessir umræðufundirnir hafa ekki verið fjölsóttir af stjórnmálamönnum. Til dæmis ekki af þeim sem oft kvarta undan skorti á umræðu um þennan mikilvæga málaflokk.
Í fjórða lagi er augljóst að áhugi álitsgjafa og stjórnmálamanna á málefnum er snúa að ESB og Íslandi er langt umfram það sem maður finnur á meðal almennings. Á opinberum fundum berst talið sjaldnast að ESB málum. Engu að síður tölum við stjórnmálamenn um þessi mál. Þau eru enda spennandi og vekja upp spurningar um álitamál sem ögrandi er að fást við.
Loks má nefna að gríðarlegt magn upplýsinga, skýrslna, bóka, greinarskrifa og blaðaskrifa liggur fyrir um Ísland og ESB, út frá mörgum hliðum. Varla getur að líta meira magn um annað pólitískt álitaefni hér á landi. Þverhandarþykkar skýrslur og doðrantar eru ekki til marks um að ráðamenn stífli umræðu um Evrópusambandið.
Þess vegna er gagnrýni af því tagi sem sett var fram á Samfylkingarfundinum um helgina alveg tilhæfulaus og vitnar fremur um fátæklegan málatilbúnað en nokkuð annað.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook