25.1.2007 | 09:07
Vonbrigði ESB - daðrara
Skoðanakönnunin í Fréttablaðinu í gær, miðvikudaginn 24. janúar, sem leiddi í ljós minnkandi stuðning við ESB aðild og andstöðu við evruna, er mjög merkileg. Ekki hafa færri viljað ESB aðild skv. könnunum frá árinu 2003. Tveir af hverjum þremur vilja hvorki fara í ESB né taka upp evruna. Þessi niðurstaða veldur ESB döðrurum sárum vonbrigðum. Umræðan síðustu dægrin hafði lagst þannig að þeir höfðu örugglega vænst meiri stuðnings við aðild Íslands að ESB og upptöku evrunnar.
Þungavigtarfólk í stjórnmálum hafði talað fyrir evrunni. Það höfðu nokkrir merkishagfræðingar líka gert. Úr atvinnulífinu bárust einnig slíkar raddir og þekkt er að innan verkalýðshreyfingarinnar hafa öflugir menn lagst á evrusveifina.
En almenningur er bersýnilega annarrar skoðunar.
Menn hafa nefnt að sveiflur í gengi séu tilefni til að kasta krónunni og taka upp evru. En er nú ekki rétt að hafa í huga hversu vel gengur í efnahagslífi okkar? Mikill hagvöxtur, óvenju mikill lífskjarabati, ekkert atvinnuleysi, gríðarlegur fjárlagaafgangur, skuldlaus ríkissjóður, stóraukin útgjöld til velferðarmála, lækkun skatta almennings og atvinnulífs. Þetta er vitaskuld ávöxtur þeirrar pólitísku stefnumótunar sem hefur skapað skilyrði til þessa árangurs.
Sannarlega er hér viðskiptahalli, en hann fer ört minnkandi. Hér er verðbólga of mikil, en hún hjaðnar hratt. Við notum þau tæki og tól efnahagsstjórnunarinnar sem við höfum til þess að bregðast við ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Inni í hafti ESB og með upptöku evrunnar, ættum við færri kosta völ í efnahagsstjórnuninni.
Það er athyglisvert að einmitt hugmyndir um að varpa gjaldmiðlum þjóða á glæ, vekja víða ákaflega mikla mótspyrnu. Þar er nærtækt að minna á Bretland. Þrátt fyrir augljósan vilja stjórnvalda þar í landi, treysta þau sér ekki í slíkar aðgerðir. Íhaldsflokkurinn hefur meðal annars eflst vegna staðfastrar andstöðu gegn því að henda breska sterlingspundinu út í hafsauga.
Og svo má ekki gleyma því hvernig almenningur í Noregi, reis upp gegn fyrirætlunum verkalýðshreyfingar, atvinnulífs og áhrifamestu stjórnmálaaflanna sem ætluðu að leiða þjóðina inn í ESB. Getur verið að niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins sé að leiða eitthvað slíkt í ljós hér á landi?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook