Engar tilviljanir þarna

SamfylkinginÚtspil Samfylkingarinnar síðustu dagana um Evrópumál og evruna er ekki neinum tilviljunum háð. Afdráttarlausar yfirlýsingar stjórnmálaflokks um svo veigamikið grundvallarmál geta ekki verið annað en úthugsaðar og skipulagðar. Ætlaðar sem útspil í pólitíska umræðu sem forystumenn flokksins telja æskilegt að sé nú á dagskrá.

Það var vitað að slíkar umræður kölluðu á viðbrögð stjórnmálaflokkanna. Einkanlega Vinstri Grænna sem hafa gengið mjög hart fram í máflutningi sínum gegn frekari Evrópusamruna. Það varð og raunin. Formaður VG var afdráttarlaus að vonum þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða frá honum við skoðunum formanns Samfylkingarinnar, sem túlka ber sem afstöðu þess flokks. Og ekki skóf formaður þingflokks VG,Ögmundur Jónasson utan af lýsingum sínum.

Útspil forystumanna Samfylkingarinnar framkölluðu þau svör sem vænst var. Þarna var nefnilega á ferðinni tilraun til þess að draga skýr skil á milli Samfylkingar og Vinstri Grænna. Forystumenn fyrrnefnda flokksins telja það nauðsynlegt. Skoðanakannanir mæla Vinstri græna í sókn, á meðan algjör stöðnun ríkir í fylgi Samfylkingar að loknu fylgistapi. Ámátlegar tilraunir Samfylkingarinnar til þess að helga sér völl á vinstri helmingi stjórnmálasviðsins hafa reynst árangurslausar. Þar ber hæst hið misheppnaða útspil, Fagra Ísland sem fyrst og fremst ýfði upp mynd sundurþykkju og ágreinings á vettvangi flokksins.

Það er því að vonum að forystumenn Samfylkingar leiti leiða til þess að draga fram áherslumun Samfylkingar og Vinstri Grænna. Flokkurinn þolir augljóslega ekki að verða í þeirri stöðu að erfitt sé að greina mun á milli áhersluatriða flokkanna. Þess vegna brydda forystumenn hans upp á hinni stórfurðulegu umræðu um evruna. Þess vegna skerpa þeir evrópuáherslur sínar og þess vegna draga þeir enn á ný upp úr pússi sínu tillögur um miklar tollalækkanir á landbúnaðarafurðum. Þeir voru að vísu gerðir afturreka með slíkan málatilbúnað á sl. hausti; meðal annars vegna skýrra viðbragða bænda. Og skemmst er að minnast þeirra harkalegu hæðniskommenta sem formaður VG hafði um þá stefnu. Þegar mikið liggur við að draga sem skýrasta línu á milli Vinstri Grænna og Samfylkingar er það hins vegar talið þénugt að vekja upp gamlar kratatillögur í landbúnaðarmálum; jafnvel þó það kosti mótlæti í landsbyggðarkjördæmunum. Í húfi er nefnilega að losna undan skugga Vinstri grænna sem þessi dægrin byrgir hina pólitísku sýn Samfylkingarinnar.

Sú staðreynd víkur trúlega  aldrei úr höfði forystumanna stjórnarandstöðuflokkanna, að fólkið í landinu vill ekki að þeir myndi ríkisstjórn. Þess vegna eru þeir í þeirri undarlegu stöðu að daðra hver við annan, en verða á sama tíma að skerpa skilin sín á milli. Þetta undarlega haltu-mér-slepptu-mér samband stjórnarandstöðuflokkanna er fyrir vikið orðið stórfurðulegt en einnig á köflum stórskemmtilegt ásýndar !

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband