7.1.2007 | 23:34
Úr herkví vondra vega
Úrskurður Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra um vegagerðina í Gufudalssveitinni markar tímamót og skiptir gríðarlega miklu máli. Úrskurður ráðherrans er vel unninn, málefnalegur og ítarlega rökstuddur. Þar með er höggvið á hnút og óvissu eytt í mikilvægu máli.
Í úrskurðinum er leitast við að sætta ólík sjónarmið sem sannarlega voru til staðar um þessa leið. Umhverfið þarna er fagurt og viðkvæmt. En hins vegar blasir við að hagsmunir íbúa Vestur Barðastrarnarsýslu og annarra sem leið eiga um veginn eru á einn veg. Það er að fara um sem næst sjávarmáli, í stað þess að vaða upp um holt heiðar hálsanna, Ódrjúgsháls og Hjallaháls.
Sjálfur gekk ég þessa leið í sumar. Þarna er fagurt um að litast. Skógurinn umræddi, Teigsskógur er sannarlega fallegur, útsýnið vítt og fagurt, og þegar út á Hallsteinsnesið kemur er sérkennilegt og stórbrotið yfir að líta. Það er því sjálfsagt að gengið sé um svæðið með gætni og virðingu. En á hinn bóginn er ljóst að vegur þarna um sem lagður verður í samræmi við skilyrði umhverfisráðherra opnar fjölda fólks leið sem ella væri því lukt. Þess vegna er þetta mjög í þágu almennings að þessi leið varð ofan á.
Heimamenn höfðu marg oft lagt áherslu á að þessi leið yrði valin. Vegleysurnar um þetta svæði eru með eindæmum. Ódrjúgsháls jafnvel ófær stórum trukkum í haustrigningum, vegurinn um Skálanes eins og hann er og þannig má áfram telja. Segja má að þeir sem hafa þurft að nýta þennan veg hafi verið í eins konar herkví vondra vega. Nú er þeirri herkví aflétt; amk. stórt skref stigið í þá átt. Með góðvegum um Gufudalssveitina styttist leiðin og við losnum við hálsana umræddu.
Ég vakti athygli á því í grein hér á heimasíðunni fyrir tæpum tveimur árum að skynsamlegasta leiðin væri sú sem nú hefur orðið ofan á. B leiðin (svo slæm sem hún er í stjórnmálum) er einstaklega vel fallin til vegagerðar þarna um slóðir og því afar ánægjulegt að hún varð fyrir valinu.
Þetta gerist ekki síst fyrir órofa samstöðu heimamanna, sveitarstjórnarmanna, almennings og sérstaklega ber að nefna nafn Þórólfs Halldórssonar sýslumanns í þessu sambandi. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur verið ásamt okkur öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis talsmaður þessarar leiðar enda skilið þýðingu hennar.
Það var því tilefni til að flagga í Vesturbyggð og Tálknafirði nú um helgina, líkt og menn gerðu svikalaust. Til hamingju með daginn !
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook