Talið við herra Blair og herra Bradshaw

Tony BlairEr það ekki merkilegt að hugsa sér hversu örlögin geta verið gráglettin og grimm. Nú standa breskir sjómenn skyndilega frammi fyrir illskeyttri, órökstuddri og tilfinningaþrungininni árás stórrar verslunarkeðju undir yfirskyni náttúrurverndar og umhverfisverndar. Þarna er þó á ferðinni algjörlega rakalaus málflutningur þar sem ekkert er skeytt um efnisleg rök. Það er hin fræga ímynd sem blívur og réttmætum hagsmunum breskra fiskimanna er fórnað á því mikla altari.

Þarna er Ben Bradshaw sjávarútvegsráðherra Breta kominn í mikinn vanda. Samkvæmt eðli máls bæri honum að bregðast til varnar fyrir sjómennina. Þeir eru beittir rangindum og ráðist að starfsgrundvelli þeirra með óeðlilegum hætti og með fölskum málflutningi. En blessaður sjávarútvegsráðherrann á ekki hægt um vik. Því snúist hann til varnar, mætir hann óðara uppvakningi sem hann hafði sjálfur forystu um að vekja upp og hafði með sér í því ráðslagi öllu, hinn hrakta og smáða  breska forsætisráðherra, Tony Blair.

Gildir einu

Og hvernig víkur þessu svo öllu við?

Þannig er mál með vexti, að stórverslanakeðja ein í Bretlandi, ASDA, kaus að lúta í gras fyrir þrýstingi Greenpeace samtakanna, sem héldu því fram að skötuselur væri ofveiddur. Með brögðum sem við Íslendingar þekkjum til þessara samtaka náðu þeir því í gegn, að ASDA fjarlægði allan skötusel úr hillum verslana sinna. Virðist þar einu gilda hvaðan þessi skötuselur kemur. Hjörtur Gíslason blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði um þetta mál stórfróðlega grein í gær mánudag 12. febrúar. Ástæða væri kannski fyrir ritstjóra Morgunblaðsins að lesa þá grein og hugleiða efni hennar þó engin ástæða sé til þess að ætla að það glæði skilning á þeim bæ á einföldum rökum ábyrgrar auðlindanýtingar. Það hlýtur nú að teljast fullreynt mál.

Íslenskur sjávarútvegur geldur þess líka

Hér við land háttar svo til að nú veiðist skötuselur í vaxandi mæli. Stofninn hefur verið í miklum vexti og útbreiðslusvæðið nær nú yfir miklu stærra hafsvæði en áður. Greenpeace varðar ekkert um þetta. Þeir hafa nú náð í gegn banni á sölu á skötusel, rétt eins og sú fisktegund sé einn stofn, hvar sem hana er að finna í heimshöfunum. Fórnarlömbin eru því allt eins íslenskir sjómenn og breskir, þegar til lengri tíma lætur.

Þetta er vitaskuld fráleit staða. Þessir tilburðir til hnattrænnar fiskveiðistjórnunar ganga alls ekki upp, rétt eins og ég benti á í ræðu, sem ég flutti á dögunum er hingað til lands kom Michael Köhler fulltrúi framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu. Fyrir nú utan það hversu fráleitt það er þegar verslunarkeðja og félagasamtök taka sér fyrir hendur að hafa áhrif á nýtingu auðlindar þegar hún er í samræmi við markmið um auðlindanýtingu.

Hræsni

Í hinu þekkta breska sjávarútvegsblaði Fishing News er fjallað ítarlega um þetta mál, þann 9. febrúar sl. Þar er ákvörðun verslunarkeðjunnar gagnrýnd harðlega. Og rökin sem þar eru borin á borð, hljóma kunnuglega á þessari heimasíðu sem nú blasir við augum lesara. Þau rök lúta einmitt að því að óeðlilegt sé að reynt sé að koma í veg fyrir lögmæta atvinnustarfsemi eins og skötuselsveiðar, sem fram fari á grundvelli vísindalegrar ráðleggingar. Veiðarnar séu sjálfbærar og standist því allar kröfur sem gerðar séu til sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Blaðið segir málflutning verslunarkeðjunnar lykta um langan veg af hræsni. Þar sé stuðst við gervivísindi ættuðum úr herbúðum Greenpeace og meintum umhverfissamtökum. Og síðan er vakin athygli á því að verslunarkeðjan sé með þessu titæki sínu að freista þess að upphefja sig á kostnað keppinautanna og ganga í augun á umhverfissamtökum sem barist hafa fyrir banni við skötuselsveiðum.

Allt eru þetta kunnuglegar lýsingar. Nema við Íslendingar getum auðvitað sett orðið hvalur í stað skötusels.

Við könnumst við það að íslenskir stór-forstjórar kjósa að viðra andstöðu sína við hvalveiðar með hávaðasömum hætti, til þess að losna við áreiti viðskiptavina sem kunna að mótmæla hvalveiðum okkar. ASDA stendur núna í álíka friðkaupum við Greepeace.

Sem flís við rass ráðherrans

Vandi bresks sjávarútvegs felst hins vegar í því að sjávarútvegsráðherra þeirra, hann Ben Bradshaw blessaður, hefur gert þessi rök svo kallaðra umhverfisverndarsinna og umræddrar stórverslunarkeðju að sínum. Hann er ofurseldur röksemdafærslum þeirra. Því mun hann ekkert geta aðhafst í raun og veru, nema að hætta því að verða mótsagnakenndur í máflutningi sínum. Rökin sem ASDA keðjan beitir í málflutningi sínum fellur sem flís við rass ráðherrans og raunar Tony Blairs. Hann hefur nefnilega skrifað  undir álíka dellu í bæklingi sem nú er verið að dreifa til þjóða sem ætlað er að ginna inn í Alþjóðahvalveiðiráðið til þess að koma í veg fyrir sjálfbæra nýtingu á veiðistofnum, sem nýta má með sjálfbærum hætti, undir vísindalegu eftirliti og í samræmi við ströngustu reglur.

Mister Blair og Mister Bradshaw

Við sjáum þess vegna nú hvernig breskur sjávarútvegur er lentur í gildrunni. Mótmælin og villukenningarnar eru ekki takmarkaðar við hvalveiðar eins og reynt er að telja okkur trú um hér á landi. Þær stafa ekki af því að hvalir séu svo sérstakar og helgar skepnur í hugum einhverra. Þessi áróður gegn okkur á sér líka aðrar rætur; sem sé þær sem breskir sjómenn eru nú að súpa seyðið af.

Og því er óhjákvæmilegt að segja við sjómenn, fiskverkendur og útvegsmenn í Bretlandi: Herrar mínir og frúr. Snúið ykkur til herramannanna þeirra mister Blair og mister Bradshaw. Kennið þeim þau einföldu sannindi að stjórnvöld eigi ekki að koma í veg fyrir ábyrga nýtingu á auðlindum hafsins.Og þau eiga heldur ekki að láta stórgróssera stjórna þeim málum, í krafti fjármagns,  villandi málflutnings og rangra staðhæfinga.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband