Af vesturleiðinni er allt gott að frétta

Horft af Hrafnseyrarheiði niður í DýrafjörðVegagerðarumræðan heldur áfram og er það að vonum. Þörfin kallar víða, öllum er ljóst mikilvægi þess að vel sé staðið að málum og við blasir að í hönd fara gríðarlegar framkvæmdir á þessu þýðingarmikla samgöngusviði. Nýlega minnti ég hér í pistli á fern tíðindi sem gerst hefðu á örfáum vikum í samgöngumálum á Vestfjörðum. Með því að taka þessi fern mál út úr og minna sérstaklega á þau, var ég einfaldlega að undirstrika þessi tilteknu tíðindi, en alls ekki að sneiða frá öðrum mikilvægum verkefnum sem við okkur blasa. Það voru einfaldlega að gerast tíðindi í fernum stórum vegagerðarmálum á Vestfjörðum, sem fullkomin ástæða var til að árétta og vekja máls á og sem urðu í þann mund er pistillinn var ritaður.  Þarna var verið að tala um þau tíðindi að út hefðu verið boðin stór  verkefni í Kollafirði í Austur Barðastrandarsýslu og Ísafjarðardjúpi. Þá hefði verið kynnt skýrsla um jarðgöng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og loks væri að hilla undir útboð á veginum um Arnkötludal og Gautsdal. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur greint frá því síðan, á fundi á Hólmavík, að það útboð færi fram innan skamms.

Ég er á vesturleiðinni...

Eggert Stefánsson spyr mig nú í pistli á BB.is af þessu tilefni. Hvað um vesturleiðina og vísar til þeirrar lífsnauðsynlegu vegtengingar sem ég hygg að við séum sammála um á leiðinni úr Dýrafirði og vestur á Barðaströnd. Vitnar hann til þess ófremmdarástands,  sem er á þessari leið og hef ég engu við það að bæta.

Af þeim ástæðum höfum við, þingmenn, sveitarstjórnarmenn og heimamenn aðrir  lagt áherslu á þessa leið í málflutningi okkar þegar um samgöngumál hefur verið fjallað. Um rökin þarf ekki að ræða, en til dæmis mætti nægja að vísa til skilmerkilegra röksemda Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra í viðtali við BB, ( 23. október sl) sem síðar var endurbirtur á hinum ágæta vef thingeyri.is sem ég les mér til mikillar ánægju og fróðleiks  með reglulegum hætti. Þá er enn að geta mjög greinargóðra skrifa Þórólfs Halldórssonar sýslumanns á Patreksfirði og einhves harðskeyttasta baráttumanns fyrir aukinni vegagerð á Vestfjörðum, en grein hans um þessi mál birtist í Morgunblaðinu í gær,  undir heitinu Veggöng á Vestfjörðum.

"Næsta verkefni"

Eins og kunnugt er hefur verið mörkuð mjög skýr stefna af hálfu samgönguráðherra varðandi  jarðgöng og tengingu á milli Dýrafjarðar og Barðastrandar. Í ræðu á Alþingi 4. maí árið 2005 vísaði samgönguráðherra til þeirra rannsókna sem staðið höfðu yfir vegna þessar framkvæmdar og sagði síðan: "Ég hef því gert ráð fyrir því og lýst því yfir sem vilja mínum að jarðgöngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verði næsta verkefni. Það þarf auðvitað að tryggja að ekki standi á undirbúningi þess verks, en framvinda verksins og undirbúningur er í eðlilegu horfi að mínu mati."

Þessi orð samgönguráðherra get ég gert að mínum. Sjálfur tók ég þátt í þessari umræðu og lagði áherslu á að ekki dygði það eitt að gera jarðgöng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Finna þyrfti heildstæða lausn á leiðinni Dýrafjörður að Barðaströnd, sem uppfyllti skilyrði okkar um góðar og tryggar heilsárssamgöngur á þessu svæði. Til þess að ekkert fari á milli mála, læt ég fylgja hér með ívitnun í þessa ræðu mína:

"Heilsárssamgöngur fyrir alla bíla, allt árið um kring"

"Málið sem hér um ræðir er gamalt baráttumál Vestfirðinga. Ég vek athygli á því að á sínum tíma var hið faglega mat Vegagerðarinnar að setja bæri göngin í sama flokk og þau göng sem þegar hafa verið ákveðin eða þegar er verið að vinna að.

Á þeirri stuttu stundu sem ég hef til umræðu ætla ég einungis að nefna einn hlut varðandi jarðgöng í Dýrafirði, sem ég tel ákaflega þýðingarmikið að menn hafi í huga, að þegar farið verði í göngin verði það gert með þeim hætti að menn sjái algjörlega fyrir sér lausnina á vegagerðinni úr Dýrafirði og alla leið vestur á Barðaströnd. Það er ákaflega þýðingarmikið að menn skoði þetta í samhengi. Það er ekki nægjanlegt að fá göngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, við þurfum líka að leysa leiðina úr Arnarfirði yfir á Barðaströnd. Að mínu mati verður það ekki gert með hefðbundinni uppbyggingu á vegi eins og við þekkjum hann núna yfir Dynjandisheiðina. Það verður annaðhvort gert með frekari jarðgangagerð ellegar með uppbyggingu á verulegum vegskálum á þessari slóð, því við verðum auðvitað að gera þetta þannig að það séu heilsárssamgöngur (Forseti hringir.) fyrir alla bíla, allt árið um kring."

Verkin tala

Þannig getur þetta vart verið skýrara. Við Sturla Böðvarsson samgönguráðherra höfum lýst vilja okkar þarna afdráttarlaust. Og samgönguráðherra hefur svo sannarlega látið verkin tala. Í sumar hafa staðið yfir rannsóknir á jarðlögum. Leyfist mér enn að vitna til þess ágæta vefs thingeyri.is þar sem greint er frá þeim upplýsingum sem þær rannsóknir leiddu í ljós. Einstaklega gott berglag fyrir jarðgöng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Þannig hefur verið vel og skipulega staðið að undirbúningi málsins. Framundan er að móta stefnuna til framtíðar í samgönguáætlun og þar með að taka afstöðu til framkvæmda á umræddri leið á milli Dýrafjarðar og Barðastrandar. Fyrir liggur afstaða mín, sem ég hef hér gert grein fyrir og sömuleiðis yfirlýsingar samgönguráðherra.

Kjarni málsins

Ég fagna hins vegar tilefninu sem Eggert Stefánsson gaf mér með því að skrifa grein sína á bb.is. Það tilefni nýti ég mér með þessum skrifum og vona að þau svari spurningunni sem hann bar upp; Hvað um vesturleiðina, Einar? Hvað mig áhrærir er afstaðan skýr og hefur meðal annars komið fram á Alþingi, eins og ég hef rakið hér að framan. Þá hefur  vilji Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra komið fram ítrekað, rannsóknir hafa staðið yfir, niðurstöður þeirra eru hvetjandi en ekki letjandi. Og vitaskuld sér hvert mannsbarn að  til þeirra var stofnað til þess að undirbúa næstu skref að jarðgangagerð, enda kostað til þeirra milljónatugum. Svarið við spurningu Eggerts er því afskaplega skýrt. Af vesturleiðinni er allt gott að frétta og að henni er unnið af heilindum og góðum hug.

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband