Miklir framkvæmdatímar í vegagerð

Vegagerð í ÍsafjarðardjúpiNú standa yfir dagar mikilla tíðinda í vegamálum á Vestfjörðum. Tíðindi síðustu örfárra vikna hafa sýnt okkur að þess er skammt að bíða að umfangsmestu vegaframkvæmdir frá dögum Vestfjarðaganga hefjist. Eftir tvö ár verður hægt að aka á bundnu slitlagi frá höfuðborgarsvæðinu og til Ísafjarðar. Jarðgöng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar eru innan seilingar og framkvæmdir við tengingu Vestur Barðastrandarsýslu eru að hefjast með meiri þunga en nokkru sinni fyrr.

Milljarðsframkvæmd í Ísafjarðardjúpi

Nú er nákvæmlega vika liðin síðan að opnuð voru tilboð í vegagerð sem má telja lok framkvæmda við vegagerð í Ísafjarðardjúpi. Mjóifjörður verður þveraður um Hrútey, lagður vegur um hálsinn við Skálavík og oní Vatnsfjörð. Brú verður lögð um Vatnsfjarðará, Reykjafjörður þveraður og vegur lagður þangað sem nýrri vegagerð um Ísafjörð sleppti. Þetta er gríðarleg framkvæmd. Sú stærsta einstaka framkvæmd á Vestfjörðum sem unnin hefur verið frá dögum Vestfjarðaganga.

Áætlaður verktakakostnaður var rösklega 1,2 milljarðar en lægsta tilboðið kom frá KNH verktökum og hljóðaði upp á ríflega milljarð. Það er til marks um stærðargráðu þessarar framkvæmdar að lengd brúnna er alls um 200 metrar; lengst er brúin yfir  Mjóafjörð vitaskuld, 130 metrar.

Framkvæmdinni á að ljúka fyrir 1. nóvember árið 2008.

En bara upphafið að öðru og meiru

Hálfum mánuði fyrr voru einnig opnuð tilboð í vegagerð um Kollafjörð í Austur Barðastrandarsýslu. Sú vegagerð er ekki af sömu stærðargráðu og vegagerðin í Ísafjarðardjúpi. Þó er þetta mjög veruleg samgöngubót. Vegagerðin nær til svæðisins frá Eyri í Kollafirði, út Kollafjörð, fyrir Skálanes og langleiðina að Melanesi. Þetta er mikilvægur áfangi. Vegurinn þarna er á köflum handónýtur og því löngu tímabært að farið sé í þessar framkvæmdir.

Hér var tilboðið líka mjög gott. Lægsta tilboðið hljóðaði upp á 178 milljónir króna, en kostnaðaráætlun var 243 milljónir króna. Hlutfall tilboðs af kostnaðaráætlun er 73% og munar þarna um 65 milljónum króna. Þarna voru KNH verktakar einnig lægstir.

Hér er þó aðeins upphafið að öðru meira. Skammt er að bíða úrskurðar umhverfisráðherra um fyrirhugað vegstæði, frá Melanesi i Þorskafjörð, sem er síðari áfanginn á veginum um Gufudalssveit. Þarna er sömuleiðis um að ræða gríðarlega mikilvæga framkvæmd og bráðnauðsynlegt að hún liggi um láglendi en ekki um hálsana tvo sem nú eru farnir, Ódrjúgsháls og Hjallháls. Þegar ákvörðunin liggur fyrir, er hægt að marka stefnuna um vegagerðina á þessum slóðum, sem endurskoðuð Samgönguáætlun mun svo móta í vetur.

Þetta er mikið verk og kostnaðarsamt. Þessi vegagerð til viðbótar við veginn um Klettsháls er því stærsta framlagið til þess að rjúfa vetrareinangrun landleiðis á þessum slóðum. Hinir stóru áfangar, sem brátt verða að baki á öðrum hlutum Vestfjarða, hljóta að gera okkur kleyft að einbeita okkur mjög að þessum kafla vega um Vestfirði.

Og af því að vegagerð um þessar slóðir verður mjög til umræðu á næstunni er afskaplega mikilvægt að vísað sé til héraðsins með réttum hætti. Vegagerð um Gufudalssveitina er oft nefnd vegagerð um Barðaströnd og sömuleiðis er meira og minna öll leiðin um Austur Barðastrandarsýslu kölluð Barðaströnd. Það er þó rangnefni. Barðaströndin hin eiginlega nær frá Siglunesi i vestri og í Vatnsfjörð. Einmitt vegna þess að þessi örnefni verða svo mjög til umræðu í tengslum við vegagerð og framkvæmdir er rétt að halda þessu til haga.

Leiðin á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar verður farin á innan við 10 mínútum

Þá er að nefna þriðja atburðinn sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kunngerði á fundi í Bolungarvík. Þar kynnti ráðherra skýrslu vegagerðarinnar um kosti í jarðgangamálum. Í framhaldi af því er ætlunin að undirbúa umhverfismatsáætlun til Skipulagsstofnunar þar sem þær leiðir sem til greina koma eru kynntar. Þetta eru leiðirnar um Syðri Dal og Tungudal, leiðin frá Ósi að Skarfaskeri í Hnífsdal og loks leiðin frá Vatnsnesi í Hnífsdal.

Það er því ljóst að þessi mál eru á mjög góðri leið. Ótrúlega er stutt síðan að við sátum í ríkisstjórn og tókum um það ákvörðun að ráðast í jarðgangagerð. Ég hef áður rifjað það upp að þetta var á mínum fyrsta ríkisstjórnarfundi og samstaðan um málið var mikil í ríkisstjórninni. Síðan hefur vel verið haldið á spöðum og einbeitt stefna samgönguráðherra legið fyrir frá fyrsta degi.

Öllum er ljóst mikilvægi þessarar framkvæmdar. Með henni leggst af vegurinn um Óshlíð og Ísafjarðarbær og Bolungarvík verða í raun eitt atvinnusvæði. Akstursleiðin frá Ísafirði til Bolungarvíkur verður til dæmis bara um 12 kílómetrar ef farin verður Skarfaskersleið. Leið fólks á milli þessara bæja verður því farin á mun skemmri tíma en hjá fjölmörgum þeirra á höfuðsvæðinu sem fara til vinnu sinnar. Raunhæft verður, með gætilegum akstri, að aka þessa leið á innan við 10 mínútum, eftir öruggum vegi.

Arnkötludal verður lokið haustið 2008

Síðast en ekki síst, í þessari upptalningu, er að nefna vegagerð um Arnkötludal. Fyrir liggur að sú framkvæmd verður boðin út eftir áramótin. Engu breytir þó ákvörðun hafi verið tekin um að dreifa fjármögnun með öðrum hætti en fyrirhugað var. Ætlunin er að ljúka framkvæmdinni haustið 2008, eins og samgönguráðherra hefur marg oft lýst yfir.

Þetta er mjög mikilsverð framkvæmd. Hún styttir leiðina um heila 40 kílómetra til Reykjavík. Það er samsvarandi styttingunni sem varð þegar Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun.

Langt er síðan að ýmsir vinir mínir á Hólmavík fóru að ámálga þessa leið við mig. Þeir sáu í þessu tækifæri fyrir Hólmavík og norðanverða Vestfirði. Í fyrstu höfðu margir efasemdir. En líkt og alltaf. Þolinmæði vann þær þrautir allar. Nú sjá allir kosti þessarar leiðar; líka þeir sem forðum voru henni andvígir, eða höfðu efasemdir um gildi hennar.

Þegar allt þetta er talið sjá allir að nú eru að renna upp góðir tímar í samgöngumálum á Vestfjörðum. Stórir áfangar eru að komast í höfn og sem óðast rekur að öðrum. Næstu árin verða álíka fjárfestingar í vegagerð á Vestfjörðum og þegar Vestfjarðagöng voru gerð. Einn þýðingarmikill munur er þó á. Samhliða jarðgangagerðinni nú verða umtalsverðar vegaframkvæmdir í Ísafjarðardjúpi, í Strandasýslu og Austur Barðastrandarsýslu. Við upplifum nú nú góða tíma, framkvæmdatíma, vegagerðartíma.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband