Já, ennþá sannast það; Íslendingar styðja hvalveiðar

06. Forvitnir gestirSkoðanakönnunin í Fréttablaðinu í dag um hvalveiðar er tíðindarík. Hún leiðir í ljós að stuðningur við hvalveiðar er mjög afgerandi hjá íslensku þjóðinni. Við vissum að stuðningur við hvalveiðar hefur verið mikill. Andstæðingar hvalveiða töldu á hinn bóginn að slíkur stuðningur væri eingöngu við prinsippið; réttinn til hvalveiða. Dæmið myndi snúast við þegar til stykkisins kæmi.

Þeir hafa reynst hafa á röngu að standa, eins og í flestu öðru í þessum málflutningi. Afstaða þjóðarinnar er skýr. Íslendingar vilja hvalveiðar. Íslendingar styðja ákvörðunina. Hún nýtur stuðnings alls almennings í landinu.

Fjölmiðlar fóru hamförum

Vel hefði mátt ímynda sér að afstaða fólks hefði breyst. Alveg frá fyrsta degi ákvörðunarinnar um hvalveiðar hafa áhrifamiklir fjölmiðlar gengið framfyrir skjöldu í andstöðu sinni við ákvörðun mína frá 17. október. Morgunblaðið fór hreinum hamförum í andstöðu sinni í leiðurum og við blasti öllum hvernig fréttir mörkuðust af afstöðu blaðsins. Blaðið hefur verið í hreinu og samfelldu önuglyndiskasti í ritstjórnargreinum Sigurjóns M. Egilssonar og leyndi því heldur ekki í efnistökum sínum í blaðinu. Stöð 2 birti daglega neikvæðar fréttir í heila viku vegna hvalamálsins og reyndi ekki einu sinni að leita eftir gagnstæðum sjónarmiðum, þar til að ég fékk tækifæri til þess að svara fyrir mig með rækilegum hætti í Íslandi í dag. Fréttablaðið birti á hinn bóginn fréttir þar sem fram komu gagnsgtæð sjónarmið og raddir mun fleiri fengu að heyrast.

Rödd sjávarútvegsins heyrðist ekki

Þá varð það athyglisvert að sjónarmið okkur helstu atvinnugreinar, sjávarútvegsins, fengu alls ekki að heyrast í þessari hvalaumræðu í fjölmiðlum. Mætti þó ætla að þessi sjónarmið væru jafn gild og önnur og rúmlega það. Hins vegar er mér til efs um að finna megi hvalaskoðunarfyrirtæki sem ekki var dregið fram á völlinn til þess að láta í sér heyra í þessari umræðu. Sjónarmið sjávarútvegs voru sniðgengin. Sjónarmiðum andstæðum hvalveiðum var gert hátt undir höfði.

Athyglisvert var einnig að í umræðum komu bæði Samfylking og Vinstri grænir fram sem einarðir andstæðingar hvalveiðanna og ákvörðunar minnar. Hvergi kom fram í þessum flokkum annað sjónarmið, þó vel væri vitað að slík afstaða væri mjög til staðar innan þeirra. Frambjóðendur í prófkjörum skrifuðu greinar af mikilli heift og reiði gegn þessari ákvörðun. Þarna beittu tveir áhrifamiklir stjórnmálaflokkar sér í raun gegn hvalveiðum.

Álitsgjafar, aflagðir spunadoktorar og sjálfskipaðir skoðanamiðlarar fóru fram í heilum herskörum gegn þessari ákvörðun á bloggsíðum og fjölmiðlum.

Almenningur talar skýrum rómi

Einmitt í ljósi þessa er það þeim mun ánægjulegra að sjá og heyra í þessari skoðanakönnun hversu einörð sjónarmið almennings eru. Gegn straumi fjölmiðlaumræðunnar fer almenningur og styður sjónarmið um sjálfbærar veiðar, rétt okkar til nýtingar auðlindarinnar og lætur ekki sveigja sig af braut sinni. Þetta eru örugglega mikil vonbrigði fyrir allt það fólk og þá fjölmiðla sem það stýrir að skynja algjört áhrifaleysi sitt. Og stjórnmálamennirnir sem tóku völdin í þessari umræðu í flokkum sínum hljóta nú að hugsa sinn gang. Um leið er þetta hvatning til þess mikla fjölda fólks sem starfar innan Vinstri Grænna og Samfylkingar og styður hvalveiðar að láta nú til sín taka. Skoðanakönnunin leiðir í ljós að það á mikla samsvörun innan flokka sinna og hjá öllum almenningi í landinu.

Það fólk sem talið hefur sig afbragð annarra - elítu - samfélagsins og hefur reynt að hafa vit fyrir almenningi í þessu máli hugsar vonandi sinn gang og reynir að virða sjónarmið þess þorra þjóðarinnar sem lætur síbylju áróðurs ekki hrugga við vel ígrunduðum skoðunum sínum.

Á undanförnum vikum, frá því að ákvörðunin var tekin þann 17. október sl. hef ég fundið gríðarlegan stuðning við ákvörðun mína. Þetta hefur verið uppörvandi og sannarlega er gott að finna svo mikinn og víðtækan stuðning fólks; meðal annars fólks sem haft hefur samband og vikið sér að mér úti á götu til þess að láta í ljósi jákvæða afstöðu sína. En merkilegt er að sjónarmið þessa fólks hafa átt afskaplega torveldan aðgang að fjölmiðlaumræðunni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband