Dagurinn sem við megum ekki gleyma

11. september11. september 2001 breyttist heimsmyndin. Árásir hryðjuverkamannanna á World Trade Center í New York og Pentagon varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna voru hinn sögulegi atburður sem settu alla heimsmyndina í annað samhengi. Mönnum var ljóst að hryðjuverkaógn var raunveruleg og alls staðar fyrir hendi. Hugmyndir manna um að hryðjuverkahættan væri einungis í einhverjum mæli á afmörkuðum svæðum, hurfu sem dögg fyrir sólu. 11. september 2001 er dagsetning sem allir hafa á hraðbergi. Þeir sem á annað borð voru komnir til nokkurs þroska vita hvar þeir voru staddir á þessum degi. Þetta er dagurinn sem enginn gleymir. Aldrei nokkurn tímann.

Hryðjuverkaárásir voru ekki gerðar af örsnauðum mönnum í hefndarhug

Hryðjuverkaárásirnar þá voru ekki gerðar af smáðum og örsnauðum mönnum sem voru að hefna fyrir vonsku og óréttlæti heimsins, eins og stundum er þó haldið fram. Osama bin Laden var forríkur og átti öll heimsins tækifæri. Mennirnir sem sprengdu sprengjurnar í Lundúnum á sínum tíma voru aldir upp í bresku velsældarumhverfi, fengu góða skólagöngu og nutu þeirra tækifæra sem vestræn þjóðfélög buðu þeim upp á. Og hinir ætluðu hryðjuverkamenn sem hugðust ráðast gegn blásaklausu fólki á dögunum með því að hertaka flugvélar í Bretlandi voru heldur ekki sprottnir upp úr heimi fátæktar og örbirgðar sem við þekkjum frá löndum Miðausturlanda, Afríku og víðar.

Engin réttlæting er til

Íraksstríðið kveikti heldur ekki hryðjuverkabálið. Innrásin í Írak var löngu eftir að árásin var gerð á Bandaríkin. Aðrar hryðjuverkaárásir Al Queida á bandaríska þegna og bandarísk mannvirki til dæmis í Afríku voru líka gerðar löngu fyrir daga Íraksstríða. Við eigum þess vegna að forðast að veita hryðjuverkamönnum syndaaflausn eða afsökun með skírskotun til vonleysis sárafátækra íbúa fátækra ríkja. Hryðjuverk eru óréttlætanleg. Punktur.

Óhjákvæmilegt stríð

Stríð gegn hryðjuverkunum er óhjákvæmilegt. Við eigum ekkert val. Hryðjuverkamenn heyja baráttu sína undir formerkjum andstöðu við tiltekin stjórnvöld. Fórnarlömb þeirra eru hins vegar saklausir borgarar. Maðurinn eða konan sem fer til vinnu sinnar til þess að sjá fjölskyldu sinni farborða. Drengurinn eða telpan sem gengur í skóla. Fólk sem engum hefur gert illt og lætur samt líf sitt, vegna þess að einhver brjálæðingurinn kýs svo.

Baráttan við hryðjuverkamenninina er háð á mörgum vígstöðvum. Hún er háð með pólitískum viðræðum, hún fer eftir diplómatískum leiðum og hún kallar á aukið innra öryggi, eins og við sjáum birtast okkur á flugvöllum, við landamærastöðvar og með margs konar breytingum sem ella hefðu ekki orðið. En henni fylgja líka hernaðaraðgerðir gegn því fólki sem vill fyrst og fremst brjóta niður hið opna og umburðarlynda samfélag sem við köllum vestræna þjóðfélagsgerð. Því það er einmitt andstaðan við slíkt þjóðskipulag sem sameinar hryðjuverkamennina. Þeirra takmark er að brjóta á bak aftur samfélag eins og okkar og reisa nýtt, þar sem viðmiðum á borð við frelsi og opið þjóðskipulag er varpað fyrir róða.

Dagurinn sem við megum ekki gleyma

11. september árið 2001 er dagurinn sem við munum ekki og megum ekki gleyma og verður því að vera okkur áminning um öfluga varðstöðu um þau frjálslyndu viðhorf sem hafa mótað þjóðfélög Vesturlanda og þeirra annarra sem hafa lýðræði að leiðarljósi. Hvort sem mönnum líka stjórnarhættir og aðgerðir Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum betur eða verrr, geta menn ekki leyft sér að horfa framhjá viðfangsefninu; markmiðinu sjálfu. Þess vegna er enginn kostur annar til. Nema auðvitað sá að fara í friðkaup við hryðjuverkamenn og þann kost velur varla nokkur maður.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband