28.8.2006 | 18:29
Við getum svo sannarlega gert gagn
Það er stundum sagt að annað hvort seiði Afríka mann og heilli eða mann langi ekki þangað aftur. Ég skrifaði um þetta á heimasíðunni minni 19. febrúar sl. Enn kemur þessi hugsun upp í hugann, nú er ég hef lokið heimsókn til Namibíu, fyrir tilstilli Þróunarsamvinnustofnunar og í boði þarlends starfsbróður míns dr. Iambo. Þarna var gott að koma fyrir Íslending. Það var notalegt að skynja þá væntumþykju og þakklæti sem við Íslendingar mætum þarna suður frá vegna aðstoðar okkar við landið, ekki síst á sjávarútvegssviðinu.
Og það var einmitt tilefnið. Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið þarna mikið og gott verk. Það er athyglisvert að einmitt á sviði þróunaraðstoðar hefur orðið hvað mestur vöxtur innan vébanda utanríkisþjónustunnar. Um það hefur verið ágæt pólitísk sátt. Við erum rík þjóð og við viljum koma að sem mestu gagni þar sem þess er þörf. Og sannarlega er þörfin víða hrópandi til himins. Þess vegna er það bæði réttlætanlegt og sjálfsagt að við leggjum okkar af mörkum; og það munar um okkur í þróunaraðstoð í sjávarútvegi.
Namibía - nýlegt sjálfstæði
Namibía er tiltölulega nýfrjáls þjóð. Gömul þýsk nýlenda og síðar undir stjórn Suður Afríku. Frelsi sitt og sjálfstæði fengu Namibíumenn árið 1990 og þá tók við öld uppbyggingar. Tökum sjávarútveginn sem dæmi. Hann hafði verið rekinn og stundaður af nýlenduherrunum í Suður Afríku. Innlend þekking var takmörkuð, sjálfstæðar rannsóknir voru ekki stundaðar af Namibíumönnum. Innri gerð sjávarútvegs í Namibíu var ekki til, menntun skorti og forræði útvegs og vinnslu var í höndum annarra.
Gagnkvæm virðing
Þetta breyttist. Við Íslendingar vorum strax með frá upphafi. Namibíumenn vildu okkur með sér til þessara verka. Og samstarf okkar og þeirra hefur borið ríkulegan árangur. Þróunarsamvinnumenn og namibísk stjórnvöld lýstu þessu samstarfi mjög á sama veg. Það einkennist af gagnkvæmri virðingu. Þó við séum í hlutverki þess sem leggur til fjármuni og sérfræðiþekkingu breytir það engu. Það er ekki reynt að troða neinu inn á landsmenn. Menn kalla eftir hugmyndum heimamanna og síðan er reynt að vinna úr þeim í sameiningu.
Innviðirnir hafa sérstaklega verið styrktir. Menntun sjómanna er núna til dæmis orðin á heimsvísu; skarar fram úr sams konar menntun á svæðinu. Sjómannaskólinn í Walvis Bay er orðinn eftirsóttur af fólki víðar að. Og það var gaman að koma í stórt og myndarlegt fyrirtæki á sjávarútvegssviðinu þar sem forsvarsmennirnir sögðust sækjast eftir fólki sem numið hefði í þessum skóla, sem Íslendingar áttu svo mikinn þátt í að byggja upp.
Ótrúlegur árangur á skömmum tíma
Auðvitað er fjölmargt eftir. En margt er hins vegar komið á ótrúlega góðan rekspöl. Við erum til dæmis að hjálpa til við uppbyggingu hafrannsókna, en sjálfstæðar innlendar hafrannsóknir og fiskveiðiráðgjöf var ekki til staðar áður en Namibía fékk sjálfstæði. Upp úr nánast engu hefur verið byggð upp myndarleg hafrannsóknarstofnun með ungu og menntuðu fólki, sem meðal annars hefur notið aðstoðar reynslumikils fólks héðan heimanað.
Augljóslega gilda á sumum sviðum önnur lögmál en hér. Vinnuaflskostnaður er lítill, en fjármagn vandfundið og dýrt, vegna þess að fjármálastofnanir hika að við leggja fram fjármuni í atvinnurekstur í löndum þar sem eru efasemdir um pólitískan og efnahagslegan stöðugleika. Þess vegna horfa menn í ýmsum tilvikum síður á lausnir sem fela í sér tæknilegar dýrar lausnir. Þó sáum við dæmi um að fyrirtæki á sjávarútvegssviðinu voru útbúin eins og við þekkjum best úr okkar heimshluta. Þetta voru til dæmis fyrirtæki þar sem unnin voru störf sem áður voru innt af hendi í Evrópu. Þetta er klassískt og við þekkjum af umræðunni. Fyrirtæki færa sig til og leita aðstæðna sem lækka kostnað og bæta afkomu. Löndin í Afríku eru á láglaunasvæði og þess vegna leita menn þangað eftir vinnuafli á tilteknum sviðum.
Til móts við fólk með þekkingu í farteskinu
Suður í Afríku og víðar í þróunarríkjunum vinnur okkar fólk þakklátt starf. Það munar um vinnuframlag þess. Maður finnur áhugann. Bæði hjá Íslendingunum sem vinna þarna ytra og hjá heimamönnum.
Þess vegna var það mér mikill heiður að fá að undirrita fyrir hönd íslenskra stjórnvalda áframhaldandi samstarf við Namibíu á sviði þróunaraðstoðar. Ég fann að þetta skipti Namibíumenn miklu máli. Þeir töldu að það gæti skilað þeim lengra fram á veginn. Þarna tók ég líka þátt í fjölþjóðlegri ráðstefnu um sjávarútvegsmál og fiskeldi í sunnanverðri Afríku sem var haldin dagana 21.- 24. ágúst í Windhoek höfuðborg Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er starfræktur hér heima. Gaman var að finna þann áhuga sem ríkti á fundinum og augljóst að ráðstefnugestir voru mjög ánægðir með hana. Þarna var líka verið að flytja til lykilfólks úr mörgum þróunarlöndum í sunnanverðri Afríku, mikla þekkingu sem komið var á framfæri með öflugum og samræmdum hætti. Þarna var því staðið að verki með skilvirkum hætti. Athygli vakti að mikill áhugi var hjá fulltrúum þessara ríkja að fá frekari aðstoð frá okkur á þessum sviðum.
Við getum lagt margt af mörkunum
Vitaskuld er þróunaraðstoð ekki ein og sér nóg til þess að koma landi til bjargálna. Við þekkjum að viðskiptastefna þróaðra ríkja er grundvallaratriði. Það að opna glufur í viðskiptamúrana er heilladrýgst. En það breytir því hins vegar ekki að jákvæð aðstoð, þar sem sérstaða viðkomandi landa er viðurkennd, getur skilað árangri. Framundan eru fjölmörg ný verkefni á þessum sviðum. Fyrir liggur stefnumörkun um aukna þróunaraðstoð sem sátt virðist ríkja um. Það er augljóst mál að við getum lagt margt af mörkunum og það eigum við hiklaust að gera.
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook