Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru að skila árangri

Áhrifin af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að draga úr þenslu eru sem óðast að koma fram. Þessar aðgerðir voru margþættar og var ekki síst ætlað að þeirra gætti á ýmsum sviðum efnahagslífsins. Það er því misskilningur sem haldið hefur verið fram að eingöngu hafi verið um að ræða frestun tiltekinna vegaframkvæmda. Með útboðsfrestun framkvæmda á vegum ríkisins var verið að stuðla að því að ná samkomulagi við aðra opinbera aðila, eins og sveitarfélögin um að gera hið sama og jafnframt að hvetja til þess að öðrum samstarfsverkefnum ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila yrði frestað. Allt til þess að draga úr þenslu, koma í veg fyrir verðbólgu, tryggja kaupmátt og skapa forsendur fyrir heilbrigðan útboðs og framkvæmdamarkað.

Árangur á sviði húsnæðismála

Tökum fyrst stórt atriði, sem eru húsnæðismálin. Við vitum að þar hefur verið gríðarlegur vöxtur. Sá mesti sem dæmi eru um lengi. Hús og íbúðir hafa risið upp. Atvinnuhúsnæði byggt í stórum stíl. Aðgengi að fjármagni var mikið sem skapaði þetta ástand. Það var öllum ljóst að á þessa þenslu þurfti að slá. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 27. júní fólst því að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs var lækkað og hámarkslánin sömuleiðis. Vextir Íbúðalánasjóðs hafa síðan hækkað. Allt þetta stuðlar að minni umsvifum á íbúðamarkaði.

Þetta er að skila árangri. Enn ein róleg vika á fasteignamarkaði, skrifa þeir í hálffimm fréttum KB banka í gær. Það hafa orðið kaflaskil á fasteignamarkaðnum og nú spá hinir vísustu menn því að húsnæðisverð fari lækkandi. Það er ekki skrýtið. Íbúðir hlaðast upp eins og birgðir á lager og liðið verður fram á næsta ár þar til þær seljast allar.

Þarna blasir við að þessi umsvifamikli framkvæmdamarkaður mun dragast saman. Rétt eins og stefnt var að.

Ekki einangruð aðgerð

Útboðsstopp ríkisframkvæmda má ekki líta á sem einangraða aðgerð. Hún var liður í tilteknu samspili. Hún var vitaskuld forsenda þess að hægt væri að vænta árangurs í viðræðum okkar við sveitarfélögin og aðra um að hægja á. Borin von var að nokkur tæki undir slíkar hugmyndir, ef ríkið héldi áfram útboðum á fullum dampi. Þessi aðferðarfræði ríkisins er líka núna að skila árangri og það miklum árangri. Nokkur sveitarfélög hafa þegar kunngert frestanir á framkvæmdum. Nefna má Reykjanesbæ og Kópavog. Ákvörðun um að stöðva útboð var þess vegna eins konar vogaraflsaðgerð sem hefur þessi áhrif.

Það er svo önnur saga að engar þessar ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók hafa hægt á framkvæmdum í vegagerð ennþá á þeim svæðum sem helst hafa verið nefnd. Þessi mál hef ég þegar útlistað hér á heimasíðunni. Undirbúningur heldur áfram og við erum þess vegna vel í stakk búin til þess að hrinda þeim í framkvæmd þegar tími verður heppilegur, sem augljóslega verður fyrr en síðar.

Hægt á framkvæmdum við tónlistar og ráðstefnuhús

Menn ræddu mikið um frestun tónlistar og ráðstefnuhúss. Sú ákvörðun hlaut að gerast í samkomulagi einkahlutafélagsins sem að því stendur, ríkisins og Reykjavíkurborgar, en það eru aðilarnir sem standa fyrir þessari miklu framkvæmd. Nú hefur verið ákveðið að til slíkra formlegra viðræðna verði gengið. Allt bendir til þess að með því að hægja á framkvæmdinni verði hægt að færa þunga hennar yfir á árið 2008. Það er gott og skynsamlegt. Líka út frá sjónarhóli eignaraðila, sem þá munu fá verkið unnið við viðráðanlegra verði.

Athyglisvert er að fulltrúi Samfylkingarinnar Stefán Jón Hafstein, bregst ókvæða við þessu strax í dag. Það fer ekkert á milli mála að með þessu er hann að löðrunga félaga sína sem hafa hamast gegn áformum ríkisstjórnarinnar um útboðsstopp. Meðal annars vegna þess að það komi ójafnt niður. Reykvíkingar sleppi á meðan landsbyggðin blæði. Nú sjáum við að þeirra málflutningur hefur bara verið prívattal en ekki settur fram í nafni flokksins. Þar gildir bersýnilega ennþá það sem forðum var kveðið úr þeim ranni að hlutfall landsbyggðarinnar í vegaframkvæmdum sé of hátt.

Forgangsröðun framkvæmdanna

En aðalatriðið er þá þetta. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um aðgerðir sem kynntar voru fyrir tæpum mánuði, eru að virka vel á efnahagslífið. Þær munu stuðla að því að hægt verður að hefjast handa við þær verklegar framkvæmdir sem síst mega bíða, svo sem vegagerð á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Menn höfðu talað þannig að ætla má að um slíka framkvæmdaröð geti myndast almenn sátt. Nú fer að koma að því að menn standi þá við þau stóru orð og þori að styðja okkur við slíka forgangsröðun framkvæmda




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband