23.6.2006 | 08:54
Samkomulag sem miklu máli skiptir
Samkomulag launþega, Samtaka atvinnulífsins og aðild ríkisstjórnarinnar að því, frá því í gær er mikilvægt á alla lund. Í fyrsta lagi vegna þess að með því er lagður grunnur að áframhaldandi lífskjarabata í landinu. Þá er þetta mikilsvert framlag til baráttunnar gegn verðbólgunni og síðast en ekki síst má ætla að þetta samkomulag tryggi kyrr kjör á vinnumarkaði. Hvert atriði um sig skiptir miklu máli. Samanlagt eru þessir þættir ekkert minna en gríðarlegur árangur.
Gagnstætt því sem þekkist í mörgum öðrum löndum, er slíkt þríhliða samkomulag ekkert einsdæmi í okkar sögu. Þekkt er dæmið frá því í upphafi sjöunda áratugarins, þegar Viðreisnarstjórnin gerði slíkt samkomulag við vinnuveitendur og launþega. Alkunna er að ríkisvaldið átti hvað eftir annað aðild að lyktum stórra kjarasamninga, svo kallaðs samflots. Samningarnir frægu, Þjóðarsáttarsamningarnir frá árinu 1990, rufu vítahring verðbólgu og kaupmáttarrýrnunar. Samkomulag af því tagi sem nú er gert telst því mjög í þessum anda.
Þetta skiptir miklu máli. Og er endurspeglun á allt annars konar samstarfi aðilanna, en við þekkjum frá öðrum löndum, í ýmsum tilvikum. Menn setja sér sameiginleg markmið um lífskjör, verðlagsþróun, félagsleg réttindi og atvinnuöryggi, svo nefnd séu dæmi og vinna saman að því að ná þeim.
Mótsagnakenndar aðstæður
Aðstæður nú voru á margan hátt sérstakar; jafnvel mótsagnakenndar. Við höfum upplifað mikinn og hraðan vöxt lífskjara. Einkaneyslan hefur samt vaxið mun hraðar en kaupmáttarþróun gaf tilefni til. Trú manna á framtíðarlífskjarabótum, gott aðgengi að tiltölulega ódýru lánsfé og aukning á verðmæti margra eigna, jók þenslu í landinu. Miklar fjárfestingar fyrirtækja og trú erlendra fjárfesta á íslenksu efnahagslífi áttu og ekki síst þátt í þessari þróun. Að sumu leyti var efnahagsástandið mótsagnakennt. Mikill hagvöxtur, hröð eignamyndun og aukin kaupmáttarsókn - en háar skuldir heimila, eru sem dæmi um þetta. Þessu ástandi þurfti að bregðast við.
Ríkissjóður er rekinn með miklum afgangi. Við höfum lækkað skuldir ríkisins gríðarlega og búið í haginn fyrir framtíðina, meðal annars með því að lækka framtíðarskuldbindingar. Samt höfum við stóraukið framlög okkar til velferðarmála og menntamála á sama tíma. Þetta hefur okkur tekist vegna þess að hagvöxtur hefur verið góður, umsvif mikil og ríkissjóður því aflað sér aukinna tekna. Það er því rangt að ríkisvaldið hafi setið þegjandi og aðgerðarlítið hjá. Öðru nær.
Ráð stjórnarandstöðunnar í þessum efnum hafa á hinn bóginn bara verið þau gömlu og ónýtu; semsé að taka undir kröfur um aukin útgjöld og stuðla þannig að frekari þenslu.
"Sígandi lukka er best"
Nú er öllum ljóst að góður grunnur hefur verið lagður. Það þýðir þó ekki að allt annað sé í höfn. Það er ekki þannig. Enn eiga við brýningar Geirs H. Haarde forsætisráðherra sem hann hafði yfir okkur í hinni ágætu 17. júní ræðu sinni og lesa má hér í heild sinni. Það er nefnilega kjarni þessa máls sem forsætisráðherra sagði í ræðu sinni:
"Allir verða að leggja sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika á næstu árum. Þar verður ríkisvaldið að gera sitt, sömuleiðis aðilar vinnumarkaðarins, bankarnir og sveitarfélögin svo ég nefni til helstu aðila þessa máls. En fyrirtækin í landinu og heimilin öll verða jafnframt að kunna fótum sínum forráð og hafa hemil á neyslu sinni og eftirspurn eftir lánsfé. Í efnahagsmálum er sígandi lukka best og jafn lífskjarabati er heppilegri en sveiflur með miklum vexti sum árin en afturkipp þess í milli.
Ég vil nota þetta tækifæri og fullvissa alla tilheyrendur um að ríkisstjórnin mun gera sitt í þessu efni, þótt það geti kostað tímabundnar frestanir á opinberum framkvæmdum, skattalagabreytingar eða aðrar aðgerðir. "
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook