Hrakfarir vinstri hræðslubandalaganna

Fyrstu tölum ærlega fagnað á kosningavöku sjálfstæðismanna á Ísafirði.Menn geta auðvitað haft ýmsar skoðanir á úrslitum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga og það er eðlilegt. En meðal þess sem upp úr stendur og er skýrt er þetta: Vinstri sambræðings hræðslubandalög tapa víðast hvar. Á því eru undantekningar, en meginlínan er skýr. Þessar kosningar voru uppgjör við hræðuslubandalögin. Og er það ekki táknrænt. Nú eru einmitt 40 ár liðin frá því að frægasta hræðslubandalag lýðveldistímans leit dagsins ljós; bandalag Framsóknar og Alþýðuflokks. Það fór á rassinum út úr þeim kosningum. Nú á 40 ára afmæli gamla hræðslubandalagsins endurtekur sagan sig. Í þessum kosningum kom glöggt fram að kjósendum hugnast ekki þessi vinstri skyrhræringur.

Veikir flokkar smala sér saman í lið

R listinn í Reykjavík var slíkt hræðuslubandalag, sem átti sér fyrst og fremst þá hugsjón að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavík, enda var til þess stofnað í kjölfar skoðanakönnunar sem benti til þess að slíkt gæti skeð. Sú atlaga að Sjálfstæðisflokknum tókst og þá kviknaði líf í fleiri slíkum hræðslubandalögum. Markmiðið er alls staðar hið sama. Að búa til pólitískt afl gegn Sjálfstæðisflokknum.

Við vitum hins vegar að sagan á bak við þessi fyrirbrigði er sums staðar jafnframt líka önnur. Veikleiki flokkanna er slíkur að það þykir henta að smala saman í lið til þess að bjóða fram. Eitt og sér treysta þessi framboð sér ekki til þess. Eftir á eru framboðin klædd í einhvern nýjan búning til þess að draga athyglina frá raunverulegum ástæðum tilveru þeirra.

Er nú sagan öll?

En er nú sagan öll? Það er eðlilegt að slíkrar spurningar sé spurt, í ljósi úrslitanna. Svarið er nei. Veikleiki flokkanna sem að þessum hræðslubandalögum hafa staðið, er slíkur sums staðar, að líklegt má telja að enn muni blakta ljós á samkrullstýrunni hist og her. En ætla verður þó að mjög muni draga úr áhuga manna á svona framboðum, í ljósi þeirra hrakfara sem kosningarnar voru fyrir bræðingsframboðin. Þess vegna vekur það auðvitað furðu að gömlu stjórnendurnir úr R lista þrotabúinu reifuðu nú að afloknum kosningunum, hugmyndir um nýjan R lista og á nýrri kennitölu að loknum fjórum árum. Það hlýtur að teljast til vitnis um ótrúlega örvæntingu sem ríkir á þeim bæ bak kosningum nú.

Alls staðar geigaði atlagan

En skoðum aðeins landslagið með hliðsjón af þessum vinstri hræðslubandalögum.

Þeir reyndu í Reykjanesbæ, Hveragerði, Vestmannaeyjum, Seyðisfirði, Ísfjarðarbæ, Bolungarvík, gjörvöllu Snæfellsnesinu án þess að takast það ætlunarverk sitt að ná hreinum meirihluta. Og það þrátt fyrir að sums staðar væri Framsóknarflokkurinn með í bixinu. Það vantaði ekki að hátt væri reitt til höggs. En alls staðar geigaði atlagan. Fylgið hrundi eða dugði ekki til, þó skoðanakannanir sýndu sums staðar góðan byr fyrir nokkrum vikum. Þetta er ekkert minna en hreint áfall fyrir þá sem að þessum framboðum stóðu. Dæmin um árangur af slíkum samkrullsframboðum, finnum við einungis í undatekningartilvikum og þar skýrist hann af staðbundnum aðstæðum.

Er þetta skýringin á gengi Frjálslyndra í Reykjavík?

Fyrir þá flokka sem starfa inni í slíkum vellingi, hlýtur reynslan líka að vera mikið umhugsunarefni. Menn tala um að erfitt sé fyrir lítinn flokk að starfa í ríkisstjórnarsamstarfi með stærri flokki. Það er sannarlega umdeilanlegt, svo ekki sé meira sagt og miklu frekar algjörlega rangt. Er þar þó jafnan um jafnræði á milli flokkanna að ræða, til dæmis með hliðsjón af skiptingu ráðuneyta. En í formlegu pólitísku bandalagi er þetta öðruvísi. Þar renna menn saman í einni hjörð og enginn nýtur sérstöðu sinnar. Þar er augljóst að litlir flokkar geta hreinlega horfið í skuggann eins og dæmin hafa sannað.  Er þetta kannski ein skýringin á því að Frjálslyndi flokkurinn í Reykjavík fær uppsveiflu núna? Hann var sýnilegur á kjörtímabilinu, gat markað sérstöðu og nýtt sér hana á meðan R listaflokkarnir hurfu í dá gleymsku.

Hvað sem öllu þessu líður blasir veruleikinn við. Hræðslubandalögin áttu vondan dag sl. laugardag. Kjósendur höfnuðu þeim og augljóslega er þátttaka í slíkum pólitískum hræringi hreint hættuspil.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband