Gamall kaldastríðsdraugur gengur aftur - og nú í Samfylkingunni

Björgvin G. SigurðssonÍ Samfylkingunni hafa menn reynt mikið til að breiða yfir nafn sitt og númer þegar hefur komið að öryggis og varnarmálum. Þar eru að sönnu innanborðs gamlir og traustir talsmenn vestrænnar samvinnu. En í farteski flokksins eru gamlar leyfar Alþýðubandalagsins; flokksins sem tók í arf hatur Sósíalistaflokksins og Kommúnistaflokksins sáluga á vestrænu þjóðskipulagi og varnarbandalaginu sem reist var af hálfu vestrænna ríkja gegn ofríki kommúnistablokkarinnar sovésku.

Það hefur opinberlega borið lítið á þessu erfðagóssi hinnar sósíalísku hreyfingar innan Samfylkingarinnar. Á henni hefur þó örlað endrum og sinnum, enda hlýtur það að vera erfitt til langframa fyrir gamla garpa úr Keflavíkurgöngum að halda aftur af sér þegar rædd er öryggissamvinna lýðræðisríkjanna. Þeir sem varið hafa æsku sinni og ríflega það í mótmæli gegn NATO og varnarliðinu fara því á kreik endrum og sinnum.

Alþýðubandalagskommi

Gamall innanbúðarmaður úr Alþýðubandalaginu, Björgvin G Sigurðsson alþingismaður Samfylkingarinnar er í þessum hópi og skrifar grein í Morgunblaðinu í dag, sem máluð er sterkum litum gamla alþýðubandalagskommans. Tilefnið er rannsókn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings á dómsúrskurðum um hleranir sem umræddar hafa verið síðustu dagana. Og ekki stóð á þingmanni Samfylkingarinnar að útskýra hið sögulega samhengi. Hann segir í greininni:


"Vissulega voru þetta tímar kalda stríðsins þegar vænisýkin ( svo. innsk. mitt) réði ríkjum og tekist var harkalega á um utanríkismálin, nánast upp á líf og dauða og vissulega fóru sósíalistar mikinn gegn undirlægjuhætti ( þetta er gamalkunnugur orðaleppur sósíalista. innsk. mitt ) íslenskra stjórnvalda í garð NATO og Bandaríkjanna."

Sjúklegt ástand?

Þetta er athyglisverður málflutningur. Björgvin notar hugtakið vænisýki, sem mun vera þýðing enska hugtaksins paranoid, sem einnig má þýða sem sjúkleg tortryggni, eða kannski tortryggnissýki. Hverju er hér verið að ýja að? Er kannski verið að gefa til kynna að stjórnmálin hafi einkennst af óeðlilegri tortryggni, svo jaðri við sjúklega afstöðu? Varla verður þetta skilið öðruvísi. Paranoid, eða vænisýki er nefnilega að uppruna sjúkdómshugtak, sem þingmaðurinn kýs að beita til lýsingar á pólitísku ástandi. Það var semsé  ríkjandi á eftirstríðsárunum eins konar sjúklegt ástand  og til staðar tortryggni sem fremur var af ímynduðum toga  en raunverulegum, að því er lesa má úr skrifum þingmanns Samfylkingarinnar.   

Greinilegt er að honum veitir ekki af að rifja upp sín fornu fræði, sagnfræðin, til þess að varpa ljósi á kafla í sögu okkar sem hann afgreiðir með svo sleggjudómafullum og makalausum hætti.

Orðaleppar Þjóðviljans eru honum tamir á tungu

Og síðan er það hitt. Og það er hið gamla hugtak úr Þjóðviljanum, undirlægjuháttur, sem er hin helsta lýsing þingmannsins á pólitískum staðháttum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Það er með öðrum orðum sú lýsing sem Björgin kýs að gefa þeim sem stóðu þétt í röð vestrænnar samvinnu gegn þeim sem t.d brugðu sér í hlutverk nytsama sakleysingjans, eða voru þjóðernissinnaðir andstæðingar vestrænnar samvinnu á sínum eðlilegu forsendum eða einfaldlega klárir andstæðingar vestræns lýðræðissamfélags og skipuðu sér því í sveit andstæðinga NATO aðildar og varnarsamningsins við Bandaríkin, svo dæmi séu tekin. Einörð afstaða okkar í kalda stríðinu er til marks um undirlægjuhátt að mati Björgvins G. Sigurðssonar.

Þetta gamla hugtak var að mestu að víkja úr íslenskri þjóðmálaumræðu, að manni fannst. En gott er að vita að lengi sé von á einum. Þjóðviljauppeldið setur sitt mark á herramenn í Samfylkingunni, eins og Björgvin.

Gamli kaldastríðsdraugurinn er genginn aftur

Þegar svona máflutningur er reiddur fram er í sjálfu sér ekki von á góðu. Og þó.  Fyrir okkur sem munum kalda stríðið og orðleppa Þjóðviljans, er það eins og afturhvarf um nokkra áratugi að lesa grein á borð við þá sem Björgvin G. Sigurðsson lætur frá sér fara í Morgunblaðinu í dag. Kaldastríðsdraugurinn lifir semsé ágætu lífi, afturgenginn í Samfylkingunni. Gaman væri svo að vita hvernig slíkur draugagangur leikur einarða NATO sinna í Samfylkingunni, svo sem formann Íslandsdeildar NATO þingsins, háttvirtan 1. þm. Reykjavíkur Norður.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband