28.3.2007 | 20:09
Eitt risastórt 0
Einhver átakanlegasta málefnafátækt sem mætt hefur sjónvarpsáhorfendum mjög lengi, birtist í málflutningi stjórnarandstæðinga í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 þar sem oddvitar Norðvesturkjördæmis komu saman. Við vitum að það vantar ekki að stjórnarandstæðingum vefst ekki tunga um höfuð sér þegar kemur að því að gagnrýna. En í þætti Stöðvar 2 var hins vegar knúið á um svör stjórnarandstæðinga við einfaldri spurningu. Spurt var: Herrar mínir ( því allt voru þetta karlar í þættinum) hvað viljið þið gera?
Og svörin voru skýr. Eitt risa stórt 0. Engin svör, mörg orð svo sem, en gjörsamlega innistæðulaus. Þetta er ótrúlegt. Stjórnarandstaða sem hefur haft allan þennan tíma til undirbúnings er skoðanalaus, þegar kemur að úrlausnum.
Tökum þann þingmann, Jón Bjarnason, sem hlotið hefur þann vafasama heiður að hafa talað allra manna mest; raunar sólarhringum saman á Alþingi í vetur. Svo málglaður maður hefði væntanlega átt að geta svarað einfaldri spurningu um hvað hann vilji gera, til dæmis í atvinnumálum á Vestfjörðum, eins og spurt var. En þarna fataðist hinum málglaða stjórnmálamanni flugið. Í bögglingi sínum nefndi hann þó tvo til þrjú dæmi um atvinnutækifæri á Vestfjörðum. Þau áttu eitt sameiginlegt; semsé að vera tillögur um atvinnutækifæri sem skapa myndu störf fáeina mánuði á ári. Hvað íbúar Vestfjarða eiga svo að gera hinn hluta ársins var hins vegar í svörtustu þokumóðu. Um það hafði sá ágæti Jón ekkert að segja.
Með öðrum orðum, vinna í þrjá mánuði á ári, en frí í 9 !!
Aðrir stjórnarandstæðingar sigldu svo í kölfarið og skiluðu einnig stóru 0.
Þetta verður þeim dapurlegra þegar hugsað er til þeirra stóru yfirlýsinga og hinna miklu svardaga sem uppi hafa verið, í sambandi við atvinnumálin. Við vitum að það er mjög auðvelt að gagnrýna. Það hlutverk hefur stjórnarandstaða hverju sinni og slíkt er afskaplega mikilvægt. En.... og það skiptir líka miklu máli. Stjórnarandstaðan á að geta boðið upp á nýja kosti. Þær kröfur á almenningur að geta sett fram gagnvart stjórnarandstöðu hverju sinni. Nú hafa málin skýrst. Stjórnarandstaðan ætlar að halda sífri sínu áfram, en eiga engar lausnir til að færa fram. Það er dapurlegt hlutskipti.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook