Einu sinni var.......

StjórnarandstaðanÞað getur eiginlega ekki orðið mikið skýrara en þetta. Kaffibandalagið er í raun horfið úr raunveruleikanum og óhætt að tala um það skrýtna fyrirbrigði í þátíð. Nú er hægt að segja, einu sinni var... þegar um er að ræða hið pólitíska ástarsamband stjórnarandstöðuflokkanna.

Í rauninni þarf ekki mikla skarpskyggni, né kunnáttu í pólitískum djúpsálfræðipælingum til þess að gera sér ljóst að forystumenn Vinstri grænna og Samfylkingar hafa í raun blásið þetta bandalag af. Yfirlýsingar í Fréttablaðinu og víðar um málflutning Frjálslyndra í innflytjendamálum eru svo afdráttarlausar að ekki er um að villast.

Fulltrúi Samfylkingarinnar var meira að segja svo forhertur að setja upp bókstaflega kennslustund í því hvernig Frjálslyndir ættu að fara að því að víkja frá stefnu sinni. Hann benti á að flokkurinn hefði í stefnumótun sinni talað um að "freista" einhvers. Með því var hann auðvitað að benda á að þetta væri eins og hvert annað sjónarspil, þar sem tjöldin yrðu dregin fyrir bak kosningum.

Síðan hefur verið bætt um betur. Formaður Samfylkingar og þingflokksformaður hafa gert tilraun til þess að taka Frjálslynda í einhvers konar byrjendanámsskeið um Evrópska efnahagssvæðið. Þar með eru send  þau skilaboð að forystumenn flokksins skilji ekki einu sinni aðalatriðið í gangverki þess alþjóðasamnings sem veigamestur hlýtur að teljast í þjóðfélagi okkar.

Það er í sjálfu sér ekki vonum seinna að rekunum sé kastað á þetta dauðadæmda kaffibandalag. Við vitum að frá upphafi hefur þjóðin hafnað svona samstarfi. Það hefur verið reist á skelfilegum brauðfótum. Ágreiningur hefur verið mikill innbyrðis, flokkarnir eru ósammála í stórmálum og sá ágreiningur hefur hvað eftir annað komið í ljós. Athygli vakti að í skoðanakönnun um daginn voru 2,2% fylgjandi ríkisstjórn þeirra þriggja flokka sem mynda Kaffibandalagið.

Við sáum vitaskuld að Vinstri grænir og Samfylking biðu þess með óþreyju að losna úr þessu banvæna faðmlagi, sem var að stórskaða þá. Nú hefur það sem sagt tekist án þess að formleg tilkynning sé gefin út. En einu má örugglega treysta; blóm og kransar verða afbeðnir




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband