Skáldið góða

Guðmundur Ingi Kristjánsson+Guðmundi Inga Kristjánssyni, önfirska skáldinu var sýndur mikill og verðskuldaður sómi nú í síðustu viku, þegar þess var minnst að öld var liðin frá fæðingu hans. Það var gaman að vera viðstaddur menningarvökuna í Íþróttahúsinu á Flateyri að kvöldi Pálmasunnudags og verða þess áskynja hvílíkrar virðingar skáldið okkar nýtur í samfélaginu hér fyrir vestan. Mættir voru líka ættingjar Guðmundar Inga, sem hafa sýnt honum og verkum hans mikla og góða ræktarsemi.

Þetta var hátíðarstund. Lesið og sungið úr verkunum og í tilefni aldarafmælisins var ljóðasafn skáldbóndans snjalla gefið út að nýju, með nokkrum viðbótarkvæðum. Formála að verkinu skrifar bróðursonur skáldsins Kristján Bersi Ólafsson fyrrv. skólameistari. Þá háðu hagyrðingar skemmtilegt mót og fór vel á því í minningu þess Vestfirðings sem best hefur ljóðað á seinni árum.

Bestu kvæði Guðmundar Inga eru með því besta sem ort var á 20. öldinni hér á landi. Til kvæða hans er gott að grípa hvenær sem færi gefst. Þangað má sækja djúpa speki, hnyttinn kveðskap, sveitalýsingar, ferðafrásagnir og einstaka sýn á hið hversdagslega.

Okkur Vestfirðingum ber að halda minningu hans á lofti og gæta þess að honum sé sýndur sá sómi og sú virðing sem honum ber.

Guðmundur Ingi var skáld. En hann var einnig bóndi sem erjaði hina vestfirsku jörð. Úr þessu samspili spann hann skáldþráð sinn. Hafði sýn á heiminn af vestfirskum sjónarhóli. Meitlaði góðar gáfur sínar með fróðleiksfýsn og lestri góðra bóka. Sótti innblásur víða, en var bundinn uppruna sínum traustum tryggðarböndum.

Sjálfur var ég svo heppinn að kynnast honum nokkuð. Hitti hann oft á förnum vegi. Heimsótti hann meðal annars ásamt konu minni og dóttur okkar, að Kirkjubóli með vini mínum og frænda hans Ólafi Þ. Harðarsyni, sem var árum saman sumarlangt hjá frændfólki sínu á þessu mikla menningarheimili. Ég minnist hans líka á Hrafnseyri að flytja kvæði, óð til Íslands á hátíðarstundu. Ógleymanlegur verður hann líka á aðalfundum Orkubús Vestfjarða, þar sem hann var hirðskáldið sem batt atburði fundarins og tengda hluti í ljóðstafi af stakri snilld.

Þeir sem stóðu fyrir menningarvökunni í Íþróttahúsinu á Flateyri, að kvöldi Pálmasunnudags eiga þakkir skildar. Okkar vestfirska skáld verðskuldar að við sýnum arfi hans og minningu virðingu og þökk.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband