8.4.2007 | 12:50
Gleðilegir páskar - gleðilega páska
Páskarnir eru ein helsta trúarhátíð okkar kristinna manna. Messur eru sungnar og guð lofaður. En páskarnir eru einnig fjölskylduhátíð; eins og raunar allar trúarhátíðir okkar. Við eigum þess kost, flest hver, að njóta samveru með fjölskyldum okkar. Í erli nútímasamfélags er það einkar mikilvægt og nokkuð sem við getum seint fullþakkað.
Í ati kosningabaráttunnar er það sérlega gott að fá til þess tækifæri að vera saman með fjölskyldunni. Eiga saman næðisstundir, borða góðan mat, njóta útiveru á skíðum eða í gönguferðum, fara í kirkju og heimsækja vini, frændfólk og kunningja.
Þannig hafa raunar páskar okkar fjölskyldu jafnan verið. Páskar hér í Bolungarvík og Ísafirði eru markaðir fjölbreytni og öllu því sem maður óskar sér á þessari stundu. Páskavikan á Ísafirði hefur löngum laðað til sín fjölda fólks, sem komið er til þess að njóta skíðaíþróttarinnar, menningarviðburða, trúarþátttöku og heimsækja vini og aðstandendur.
Mér er í ljúfu barnsminni þegar sjálfur Gullfoss sigldi inn í Ísafjarðarhöfn um páska og bærinn fylltist af fólki að sunnan, sem bjó um borð í þessu glæsilega flaggskipi og setti svip á mannlífið. Nú kemur Gullfoss ekki lengur, en fólkið streymir vestur á skíði og í öðrum erindagjörðum um páska. Bærinn fyllist af lífi sem einkennir hann þegar ókunnugt fólk og brottfluttir stika um hinn glæsilega og einstaka miðbæ á Ísafirði, skellir sér kannski í sund í bæjunum í kring og nýtur náttúrufegurðarinnar.
Og nú er annað einkennismerki reist á Ísafirði um páska. Hátíðin mikla Aldrei fór ég suður dregur að sér fjölda fólks; þúsundir heyrði ég í fjölmiðlum og það getur svo sem alveg verið satt, miðað við allan fjöldann sem maður hittir hvarvetna þessa dagana hér fyrir vestan.
Þessi hátíð er alveg ótrúleg. Menn geta svo sem haft ýmsar skoðanir á tónlistinni; hún er satt best að segja nokkuð hávær fyrir okkur fimmtuga, karla og kerlingar. En stemmingin; maður lifandi, hún er ólýsanleg. Umgjörðin, skemman hans Aðalsteins Ómars vinar mín niðri á höfn, fellur einstaklega vel að hátíðinni og ekkert síðri til þessa brúks en sjálft Edinborgarhúsið, svo flott sem það er nú annars orðið. Þeir feðgar Guðmundur Magnús Kristjánsson, Muggi og Örn Elías Guðmundsson, Mugison, eiga þakkir skildar fyrir framtakið. Það hefur vakið þjóðarathygli. Enginn sem vill teljast með í rokksamfélagi Íslands sleppir því að koma vestur, ýmist til að spila eða fylgjast með. Þeir feðgar eru sannir afreksmenn og eiga skilið þjóðarlof, ekkert minna, fyrir tiltækið
Þessir páskar hafa verið gleðilegir og ég sendi lesendum þessarar síðu bestu páska óskir. Gleðilega páska.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook