9.4.2007 | 22:10
100 milljarða loforð á tveimur mínútum
Sjónvarpsumræður forystumanna stjórnmálaflokkanna nú áðan drógu upp skýra mynd af kostum stjórnmálanna um þessar mundir. Fyrst og fremst vegna þess að ráð Vinstri grænna, Íslandshreyfingarinnar, Samfylkingar og Frjálslyndra voru öll á eina leið. Aukin útgjöld og helst í bland við snarlækkun ríkistekna. Þetta er óábyrgt tal, sem útilokað er annað en að almenningur sjái í gegn um.
Einn sagði, án þess að depla auga. Skattleysismörkin upp í 150 þúsund krónur. Annar sagði burt með allar tekjutengingar í velferðarkerfinu. Og þetta gekk upp úr mönnunum á tveimur þremur mínútum í sjónvarpsþættinum. Líklega dýrustu mínútur í samanlagðri sögu íslensks sjónvarps. Líklegt er að þessar og álíka tillögur sem fram komu hjá þessum fulltrúum stjórnmálaflokkanna slagi upp í svona 100 milljarða.
Þetta er auðvitað fáránlegt tal.Tökum aðeins dæmi af tekjutengingunum. Þeim er ætlað að stuðla að jöfnuði og að nýttir séu fjármunir sem fara til almannatrygginga í því skyni að bæta kjör þeirra sem helst þurfa á því að halda. Nýta peninga sem ríkissjóður ætlar til almannatryggingabóta með þeim hætti að það dreifi tekjum - jafni þær. Tillagan um að afnema tekjutengingar færir ríkum sem hinum lakar settu bætur, sem betur væru komnar hjá þeim sem lakast hafa kjörin. Hitt ber þó að játa. Tekjutengingarnar eru vandmeðfarnar og verða örugglega eilífðar úrlausnarefni stjórnmálanna. En þær hafa þann tilgang að nýta fjármuni til almannatrygginga sem best fyrir þá sem á þurfa að halda - og - að jafna kjörin.
Hér er þó einungis verið að vísa til afmarkaðs hluta þess loforðaflaums sem út hefur gengið af vörum vinstri manna. Fráleitt er hér allt upp talið. Frá því verður greint síðar, til þess að varpa ljósi á þann valkost sem stjórnarandstaðan er.
Svo gerðist það enn á ný að Kaffibandalagið var huslað. Sent niður á fetin sex. Harkan sem greinilega er hlaupin í umræðurnar gagnvart Frjálslyndum af hálfu Samfylkingar og VG talaði sínu máli. Steingrímur talaði skýrt. Sagði hrygglengju bandalagsins vera í flokki sínum og Samfylkingu. Þar með var Frjálslyndum hent út í myrkrið. Þetta bandalag verður því varla á dagskrá sem póltískur möguleiki, nema verið sé að slá ryki í augu kjósenda.
Gegn þessuðum sundraða hópi gengur Sjálfstæðisflokkurinn öflugur, samhentur og keikur, undir forystu þess manns sem mests trausts nýtur í hópi forystumanna íslenskra stjórnmála, Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Festa hans, hógværð og málefnaleg framganga í sjónvarpsþættinum sýndi sjónvarpsáhorfendum svart á hvítu af hverju hann nýtur slíkrar hylli almennings.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook