Kannski trúa þeir vitleysunni úr sjálfum sér

Vegagerð í ÍsafjarðardjúpiHvernig stendur á því að upplýstir þingmenn og frambjóðendur klifa á röngum fullyrðingum í stórum og mikilvægum málum? Getur það virkilega verið að einhver telji sér það henta að halda fram rangfærslum eða að einhver trúi því að séu þær endurteknar nógu oft, þá leiði það til þess að menn leggi trúnað á vitleysuna?

Þessar og viðlíka spurningar hafa komið upp í huga minn undanfarnar vikur, undir útsendingum frá framboðsfundum í ljósvakamiðlum héðan frá Norðvesturkjördæmi. Fyrst í sjónvarpsþætti Stöðvar 2 á dögunum og nú í dag í útvarpsþætti Rásar 2. Þar var því haldið fram, af endilöngum frambjóðendum stjórnarandstöðunnar að sú ákvörðun að stöðva útboð á ríkisframkvæmdum nú í sumar, hafi valdið töfum og bitnað á framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru á Vestfjörðum.

Þetta er rangt. Þetta er kolrangt og það eiga þessu ágætu frambjóðendur og þingmenn að vita.

Í sumar var ákveðið að stöðva útboð á vegum ríkisins. Jafnframt að óska eftir því við sveitarfélög að þau hægðu á í sínum framkvæmdum. Því tóku þau vel, enda ljóst að þeim hentaði vel að hægja á í því þensluástandi sem var á verktakamarkaði á þessum tíma. Hið sama gerðu til dæmis framkvæmdaaðilar tónlistar og ráðstefnuhúss í Reykjavík, eins og kom fram í yfirlýsingu frá þeim.

Áfram var þó haldið við tæknilegan undirbúning framkvæmdanna. Þar var í engu hægt á. Gefið var síðan grænt ljós á útboðin í októberbyrjun. Engar framkvæmdir fóru hins vegar af stað á Vestfjörðum fyrr en í nóvemberbyrjun. Ekki vegna þess að fjármagn hafi skort. Ekki vegna þess að ríkið heimilaði það ekki. Heldur vegna þess að tæknilegum undirbúningi var ekki lokið.

Þar var ekki við ríkisvaldið að sakast. Ríkisstjórnin verður ekki dregin til ábyrgðar. Staðan á málunum er hins vegar sú nú, að allar þær framkvæmdir sem um var rætt á Vestfjörðum, eru komnar af stað, eða útboðum lokið. Lokaáfangi Ísafjarðardjúps er vínnslu. Útboðsverkið í Gufudalssveitinni á fullri ferð og næsti áfangi boðinn út um leið og tæknilegum undirbúningi lýkur. Arnkötludalurinn er á samningsborði með verktaka. Óshlíðargöngin eru í tæknilegum undirbúningi, fjármagn tryggt og útboð fer fram jafnskjótt og hönnun lýkur. Dýrafjarðargöng eru í fyrsta sinn á samgönguáætlun.

Fullyrðingar stjórnarandstæðinganna eru því illskiljanlegar. Þessar staðreyndir hafa svo oft verið kynntar opinberlega. Því er ótrúlegt að þeim séu þær ekki kunnar. Það getur hins vegar ekki verið að þeir séu að fara vísvitandi með rangt mál. Því verður einfaldlega alls ekki trúað á svo ágætt fólk. Eina haldbæra skýringin er því sú að þeir hafi hreinlega bara gleymt hvernig búið var í pottinn; nema að þeir séu sjálfir farnir að trúa vitleysunni úr sjálfum sér !




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband