12.4.2007 | 22:16
Öflugur Landsfundur okkar er hafinn
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins markar alltaf tímamót í stjórnmálum. Landsfundurinn er öflugasti stjórnmálafundur í landinu, enda æðsta vald í málum stærsta stjórnmálaflokksins þar sem stefnan er mótuð fyrir flokkinn til næstu ára. Nú er Landsfundurinn haldinn einum mánuði fyrir kosningar og hlutverk hans verður því að semja kosningayfirlýsingu flokksins.
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa löngum verið öfundarefni andstæðinga okkar. Óteljandi eru þær nöldurs og neikvæðnigreinar sem þeir hafa sett á blað vegna þessa fundar. Það er skiljanlegt og vel fyrirgefanlegt. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hlýtur að vera tilefni til öfundar í hugum póltískra andstæðinga flokksins.
Ræða Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra var mjög yfirgripsmikil, málefnaleg og kröftug. Hann dró upp mynd af fortíðinni og setti þær gríðarlegu framfarir sem hafa orðið á flestum sviðum í eðlilegt sögulegt samhengi. Í ræðunni var brugðið skýru ljósi á breytingarnar sem hafa orðið í þjóðfélaginu, lífskjarabyltinguna, aukna fjölbreytni atvinnulífsins, stóraukna menntun, bætt kjör lífeyrisþega og aldraðra, svo dæmi séu tekin.
En hann horfði ekki síður til framtíðar. Því þótt andstæðingum okkar gangi illa að skilja það, þá lýkur viðfangsefnum stjórnmálanna seint. Þegar einum áfanga er náð, þá tekur annar einfaldlega við. Dæmi: Þegar gert hefur verið átak til þess að bæta kjör aldraðra eins og meðal annars hefur verið gert með samningum við samtök þeirra, þá horfum við til þess hvað gera beri frekar. Það boðaði formaður Sjálfstæðisflokksins.
Annars vegar með því að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri frá lífeyrissjóði, t.d. 25 þúsund krónur á mánuði, til hliðar við greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Þannig verði komið til móts við þá, sem ekki hafa getað aflað sér neinna eða einungis smávægilegra réttinda til greiðslna úr lífeyrissjóðum.
Hitt atriðið sem formaður flokksins nefndi varðandi málefni aldraðra var að minnka sem fyrst hinar almennu skerðingar í almannatryggingakerfinu úr um 40% í 35% og að þeir sem orðnir eru sjötugir geti unnið launaða vinnu, ef þeir vilja, án þess að launin skerði lífeyri frá Tryggingastofnun.
Þetta eru mikilvæg áhersluatriði, sem ástæða er til þess að fagna og undirstrika. Þetta sýnir skýran vilja okkar til þess að halda áfram á þeirri braut að bæta kjör eldra fólks. Annars vegar með áherslu á þá sem ekki áttu kost á að afla sér lífeyrisréttinda. Hins vegar að gefa eldra fólk kost á að vinna án þess að það skerði almennatryggingalífeyri. Slíkt er aðferðafræði Sjálfstæðismanna; að gefa fólki færi á að bjarga sér, en sinna jafnframt þörfum þess fólks sem þarf á sérstakri aðstoð að halda.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook