Við hlökkum til næstu vikna

Frá LandsfundinumLandsfundurinn okkar hefur gengið sérlega vel. Það er mikill samhugur landsfundarfólks og greinilegt að allir hlakka nú til að takast á við kosningabaráttuna þann tæpa mánuð sem er til kosninga. Enginn vafi er á því að Landsfundurinn verður okkur öflugt vopn inn í þessa baráttu. Það skiptir okkur máli að koma til leiks með tillögur í fjölþættum málaflokkum og kröftuga stjórnmálaályktun sem jafnframt verður kosningayfirlýsing okkar.

Þetta er svo mikilvægt vegna þess að við höfum undirbúið þessa málefnavinnu með lýðræðislegum hætti. Í aðdraganda Landsfundarins unnu málefnahópar á flestum sviðum. Að þeirri vinnu kom fjöldi fólks. Haldnir voru opnir fundir, með fjarskiptatækni nútímans gafst enn fleirum kostur á því að leggja sitt af mörkunum. Þegar til Landsfundarins var komið, settust fulltrúarnir í málefnanefndir og réðu sínum ráðum. Lokaafgreiðsla málanna fór svo fram á fundinum sjálfum, en þar eiga seturétt upp undir tvö þúsund manns.

Tökum dæmi um Sjávarútvegsnefndina. Á Landsfundinum sátu 120 manns í nefndinni. Við ræddum drög að ályktun í þaula. Við leituðum lausna, unnum að samkomulagi og mótuðum stefnu, sem þessi breiði hópur gæti sameinast um. Það tókst okkur líka. Þannig fór svo tillagan inn á Landsfundinn og fékk þar góðar móttökur og var samþykkt samhljóða. Þarna sjáum við að stór hópur fólks hefur áhrif. Þarna eru allir jafn réttháir. Þetta eru dæmi um lýðræðisleg vinnubrögð. Stór hópur fólks með ólíkan bakgrunn vinnur saman að því að móta stefnuna, sem væntanlega á eftir að setja mark sitt á þjóðmálaumræðuna og vonandi stefnu þjóðfélagsins í framtíðinni. Þetta á við um Sjávarútvegsnefndina en einnig aðrar nefndir á Landsfundinum

Slík málefnavinna er í rauninni einstæð hér á landi. Slíkt getur ekki að líta í öðrum flokkum. Við sáum muninn á okkar Landsfundi og fundi Samfylkingarinnar sem haldinn var sömu helgi. Það er augljóst að þar fór ekki fram sama málefnavinnan. Í bakherbergjum var mótuð stefna í mikilvægum málaflokkum án þess að Landsfundur flokksins ætti að því aðkomu. Til dæmis í umhverfismálum - Fagra Íslands, málefnum ungmenna - Unga Ísland og svo skýrsla Jóns Sigurðssonar fyrrverandi bankastjóra og ráðherra. Tíminn á fundi þeirra var augljóslega ekki mikið nýttur til málefnavinnu, en fremur til að hlusta á ágætt fólk utan flokksins halda erindi.

Til fundarins var boðið tveimur flokksformönnum jafnaðarmannaflokka frá Danmörku og Svíþjóð, sem eiga tvennt sameiginlegt með formanni Samfylkingarinnar. Þær eru allar konur og síðan eru þær Ingibjörg Sólrún, Mona Sahlin og Helle Thorning Schmidt, allar í stjórnarandstöðu.  Þær mynda því eins konar stuðningshóp í þessum vandræðum sínum.

En við Sjálfstæðismenn höldum nú keikir út í vorið og höldum áfram kosningabaráttunni, tvíefldir, með öflugan Landsfund að baki og lýðræðislega mótaða og öfluga stefnu í farteskinu. Við hlökkum því til næstu vikna.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband