Jákvæð tíðindi úr sjávarútvegsumræðunni

Borgarafundur Sjónvarpsins á ÍsafirðiVandinn við umræður um sjávarútvegsmál er gjarnan sá að menn nálgast þær ekki alltaf eins og verið sé að tala um atvinnugrein, sem verði að lúta lögmálum atvinnulífs. Þó er það þannig núna að sjávarútvegur okkar hefur aldrei þurft að heyja jafn harða samkeppni hér innan lands og einmitt núna. Nýjar atvinnugreinar hafa komið til skjalanna, sem laða til sín mikið fjármagn. Fjárfestar leita í aðrar áttir til þess að ávaxta fjármuni sína. Ungt fólk hefur úr miklu að velja um störf og starfsmöguleika.

Það er í þessu umhverfi sem sjávarútvegurinn heyr nú samkeppni sína. Þess vegna verðum við að gæta þess þegar við ræðum sjávarútvegsmálin að það sé gert þannig að leiðarljósið sé ævinlega að treysta samkeppnislega stöðu þessarar undirstöðuatvinnugreinar. Ella verður sjávarútvegurinn einfaldlega undir. Það skaðar starfsfólk hans, eigendur og byggðarlögin sem allt sitt eiga undir velgengni sjávarútvegsins; rétt eins og þjóðarbúið sjálft, sem reiðir sig á velgengni sjávarútvegsins, bakhjarlsins í efnahagslífi okkar.

Í ljósi þessa var athyglisvert að nær allir talsmenn stjórnmálaflokkanna sem ræddu málin í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld voru þeirrar skoðunar að þær breytingar sem gerðar yrðu á sjávarútvegsstefnunni yrðu að vera sem þróun, ekki kollsteypa. Tóku þeir þannig undir það sem ég lagði áherslu á í málflutningi mínum. Frjálslyndir höfðu tiltekna sérstöðu, þó fulltrúi flokksins vildi lítið vita af stefnu flokks síns, sem felur í sér að færa einstaklingum fiskveiðirétt í formi daga, í stað magns.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar miklar breytingar á sjávarútvegsstefnunni, eins og ég hef til dæmis rakið í greinum að undanförnu og lesa má hér á heimasíðunni. Þar ber vitaskuld hæst að veiðiréttur smábáta hefur verið stóraukinn til þess að treysta grundvöll þess útgerðarforms sem mikilvægast er í minnstu byggðunum mörgum hverjum. Nú er kallað eftir því af útgerðarmönnum þessara báta að, trillukörlunum, að þeir fá tiltekinn stöðugleika, svo þeir geti sem best skipulagt atvinnurekstur sinn. Þeir gera kröfu til þess eins og aðrir í atvinnulífinu að reynt sé að draga úr óvissu.

Við vitum enda að óvissa er sérstaklega fjandsamleg einstaklingsútgerð, stuðlar að því að nýliðar hverfi úr atvinnugreininni og leiðir til frekari samþjöppunar. Þetta ber okkur að hafa í huga. Það var því einkar athyglisvert að bæði Samfylking og Vinstri grænir tóku í raun undir þessi sjónarmið; ekki síst Össur Skarphéðinsson sem setti fram hófsamari sjónarmið í sjávarútvegsmálum en oft hafa heyrst frá flokki hans. Það er sannarlega góðs viti og sætir tíðindum sem jákvæð hljóta að teljast.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband