Skrímsli með menningarbrag

Einar og Elvar LogiÞað var sannkallaður menningarbragur í Baldri, félagsheimili Bílddælinga, síðdegis sumardaginn fyrsta. Ekki í fyrsta skipti. Menningarstarfsemi stendur á sérlega gömlum og grónum merk á Bíldudal og í ófá skipti hef ég skemmt mér undir leiklist og tónlistarflutningi Bílddælinganna í félagsheimilinu.

Nú stóð hins vegar sérlega mikið til. Elvar Logi Hannesson, Logi, eins og Bílddælingarnir kalla hann, var mættur til þess að frumflytja einleik um skrímslafræðinginn Jónatan og sló auðvitað algjörlega í gegn. Hann er alveg ótrúlega snjall og verkið var bráðskemmtilegt. Örn Gíslason frændi hans rifjaði það upp við sýningarlok að einmitt þarna hafði Logi stigið sín fyrstu leiklistarskref, ábyggilega í kompaníi við þá bræður Örn og Áka og föður sinn Hannes og fleiri slíka snillinga.

Temað í leikritinu er skrímsli og fer vitaskuld einkar vel á því að verkið sé frumflutt í Arnarfirði, skrautlegustu heimkynnum skrímsla á Íslandi, að sögn þeirra sem best þekkja til. Og við lok sýningarinnar var síðan gerð grein fyrir Skrímslasetrinu á Bíldudal sem þar mun rísa. Valdemar Gunnarsson, Bílddælingur greindi frá því sem gert hefur verið við undirbúning. Menn eru að leita að hentugu húsnæði og síðan er ætlunin að uppbygging hefjist. Þarna eru allar forsendur til að gera eitthvað mjög skemmtilegt og sem nemur athygli ferðamannsins. Skrímslasetrið á Bíldudal á að hafa allar forsendur til þess að verða eitt af vörumerkjum svæðisins, líkt og Galdrasafnið er á Ströndum, Vesturfarasetrið á Hofsósi, Draugasafnið  á Stokkseyri og fleiri álíka eru smám saman að verða víðar um landið.

Bílddælingum er líka vel trúandi fyrir svona uppbyggingu. Þarna getur að líta stórsnjalla sögu-  og sagnamenn.  Þeim verður ekki skotaskuld úr því að klæða þetta menningarlegu yfirbragði.

Valdemar heiðraði mig með því að kalla mig til og afhenda mér flottan bol með nýju merki Skrímslasetursins. Kannski það hafi verið vegna þess að ég kom örlítið að málinu með honum í upphafi og reyndi að greiða því leið. Það er gaman að taka þátt í slíku með hugmyndaríku og duglegu fólki.

Annars var einstaklega ánægjulegt að koma á Bíldudal núna. Þar ríkir mikil bjartsýni. Nýja Kalkþörungarverksmiðjan er að fara af stað. Þar verður til nýr og stabíll vinnustaður, sem skapar alveg nýja vídd í atvinnulífið í Vestur Barðastrandarsýslu. Svo eru Oddi og Þórsberg að byrja fiskvinnslu í frystihúsinu. Fólk fyllist bjartsýni og hyggur að fleiri tækifærum.

Skrímslasetrið og uppfærsla Elvars Loga eru dæmi um slíkt. Í sumar mun byggðin fagra við Arnarfjörð því væntanlega iða af lífi;  öflugu atvinnulífi og frísku mannlífi. Unga fólkið fær trú á byggðinni og það verður jafn gaman og fyrr að koma, setjast niður með góðum vinum og láta gamminn geysa; og skella sér svo á eftir á safnið hans Jóns Kr. eða í Skrímslasetrið á lognkyrrum sumarkvöldi við Bíldudalsvoginn. Tilhlökkunin hefur þegar tekið sér bólstað í hugskotinu.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband