Eru vinstri menn handgengnastir fjármagnsöflunum?

KosningaféSú goðsögn hefur verið lífseig og vinstri menn haldið í henni lífinu að Sjálfstæðisflokkurinn hefði greiðan aðgang að fjármunum og gæti nýtt sér það flokknum til framdráttar í kosningabaráttu. En nú sjáum við það svart á hvítu að þetta er ekki raunin. Flokkarnir komu sér nefnilega saman um að fá Capacent Gallup til þess að fylgjast með fjármunum sem í auglýsingar færu eftir að hafa náð samkomulagi um tiltekð hámark í auglýsingabirtingar í fjölmiðlum. Hámarkið er 28 milljónir.

Nú hafa athuganir Capacent Gallup birst tvisvar. Og sjá. Það er Framsókn sem ver mestu fé til auglýsinga tæpum 7 milljónum króna, eða um fjórðungi hámarksins sem leyfilegt er að nota. Í kjölfarið koma svo Vinstri grænir með tæpar 6 milljónir, þá Frjáslyndi flokkurinn með tæpar 5 milljónir, Samfylking sömuleiðis með tæpar 5 milljónir og loks við Sjálfstæðismenn sem einungis höfum varið 3,4 milljónum eða helmingi minna en Framsóknarflokkurinn.

Þetta er afskaplega athyglisvert. Við verjum sem sé lang minnstu fjármagni til þessara auglýsinga. Vinstri menn sem hafa haft stór orð uppi um auglýsingaóhóf hafa notað snöggtum meira fjármagn til þess arna en Sjálfstæðisflokkurinn. Gagnstætt því sem goðsögnin hefur gengið út á; goðsögnin sem vinstri menn hafa búið til og klifað á áratugum saman.

Þetta er lærdómsríkt og lýsir kannski tilteknum tvískinnungshætti, ekki alveg ósvipuðum þeim sem vakti hlátur fólks er það upplýstist að vinir vistvæns umferðarmáta í hópi VG hefðu engir - með einni undantekningu þó - komið öðruvísi en á bíl til landsfundar síns.

Í umræðunni um auglýsingar og stjórnmálaflokka hefur temað verið einfalt. Þess hefur verið freistað að búa til tengsl meints aðgangs að fjármagni, auglýsinga og því að í krafti þess arna gætu tilteknir stjórnmálaflokkar keypt sér leið að góðum árangri í stjórnmálabaráttu. Nú kemur á daginn að það eru ekki síst þau stjórnmálaöfl á vinstri vængnum sem hafa haft uppi slíkan málflutning, sem eru rausnarlegust á auglýsingafé. Eru þessar upplýsingar til marks um að vinstri menn séu orðnir svona handgengnir fjármagnsöflunum? Við skulum ekki svara því hér, en við munum að VG sendi sem frægt var, bréf til 100 stærstu fyrirtækjanna í landinu, - svo sem álrisanna - og beiddu fjármagns.

Og næsta spurning sem vaknar er þá þessi: Eru tengsl á milli fjármuna til auglýsinga og árangurs í stjórnmálabaráttu? Svarið við þeirri spurningu fæst 12. maí.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband