3.5.2007 | 11:40
Stóriðjumálin voru varla nefnd á nafn
Fyrsti framboðsfundurinn af þremur, þar sem fulltrúar allra framboðslista mæta til sameiginlegra kappræðna, var haldinn í gær í Fjölbrautaskólanum á Akranesi. Efstu menn listanna hafa þó áður hist á nokkrum fjölmiðlafundum, eins og kunnugt er. Það getur verið gaman á slíkum fundum og gagnið af þeim felst væntanlega í skoðanaskiptunum.
Það vakti meðal annars athygli á þessum fundi að fulltrúar þeirra framboðslista sem harðast hafa talað gegn stóriðju í landinu, nefndu þær skoðanir sínar ekki á nafn á fundinum á Akranesi. Það er skiljanlegt. Á Grundartanga í næsta nágrenni við Akranes hefur stóriðjuuppbygging tekist vel og hefur átt mikinn þátt í þeirri jákvæðu íbúaþróun sem hefur átt sér stað á þessu svæði. Akranes nýtur þessarar uppbyggingar og sama má segja um ýmis önnur svæði kjördæmisins.
Í hugum íbúanna er stóriðja ekki til óþurftar eins og skilja hefur mátt á framboðunum sumum. Þar til í gær. Það örlaði aðeins fyrir stóriðjuandstöðu í einni ræðu frambjóðanda Vinstri grænna, en ekki var mikil alvara eða þungi í þeim málflutningi.
Vitaskuld er eðlilegt að við nýtum vatnsaflið til atvinnusköpunar í landinu. Við erum að nýta endurnýjanlega orkukosti sem ekki menga, gagnstætt því sem á við um ýmislegt annað. Álverin eru eftirsóttur vinnustaður, sem hefur sýnt sig í gegn um tíðina. Hér á landi erum við með mjög stranga umhverfislöggjöf, til þess að tryggja að nýting þessara náttúruauðlinda sé í samræmi við skoðanir okkar um sjálfbæra orkunýtingu. Með það að leiðarljósi er illskiljanleg þessi andstaða.
Þær hugmyndir sem hafa verið uppi um stóriðju þurfa vitaskuld að rúmast innan skynsamlegs efnahagsramma. Það er vandæðalaust að sjá svo um að slíkt gerist. Þannig virkar þessi atvinnuuppbygging ekki gegn annarri atvinnuþróun, en getur þvert á móti stutt við hana.
Þetta sýnir okkur að við eigum að sjálfsögðu að ræða þessi mál hispurs- og fordómalaust. Ekki útiloka eitthvað fyrirfram. Við eigum að nálgast þessa atvinnuumræðu eins og aðra, gera skynsamlegar kröfur til arðsemi af virkjunum, setja framkvæmdunum stranga umhverfisskilmála, hverfa frá ríkisábyrgðum og skapa þessum atvinnurekstri sömu starfsskilyrði og öðru atvinnulífi í landinu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook