4.5.2007 | 19:43
Þeir eru aftur farnir að hóta Kaffibandalagi
Framboðsfundir okkar í Norðvesturkjördæmi hafa leitt það í ljós að að flokkarnir sem mynduðu hið alræmda og óvinsæla Kaffibandalag eru enn við sama heygarðshornið. Að því bandalagi standa Vinstri Grænir, Frjálslyndir og Samfylking, eins og kunnugt er. Hvað eftir annað hótuðu talsmenn flokkanna að stefna að ríkisstjórnarmyndun ef þeir ættu þess kost. Þetta heyrðum við bæði á framboðsfundinum á Akranesi og á Ísafirði.
Þetta gerum við ef og þegar við verðum komin að ríkisstjórnarborðinu, sögðu fulltrúar og talsmenn flokkanna. Það er þess vegna enginn bilbugur á vinstra liðinu. Hótunin um vinstri stjórn sem varla nokkur maður vill sjá er raunveruleg og ekki annað að heyra en að baki þessu sé fullkomin alvara.
Fljótlega eftir að hið alræmda bandalag varð myndað kom í ljós að það naut afskaplega lítils álits almennings. Eftir því sem málin hafa þróast hefur andstaða fólks vaxið við tilhugsunina við vinstri stjórn.
En það láta talsmenn vinstri manna ekki aftra sér. Þeim er greinilega full alvara.
Margir álitu - og þar á meðal skrifari þessarar heimasíðu töldu að Kaffibandalagshugmyndin væri dauð. Spörk og pústrar á milli þeirra stjórnmálaafla sem mynda bandalagið höfðu bent til þess að forsendur stjórnmálasamstarfs þeirra væru úr sögunni. Ágreiningur um nánast allt sem tjáir að nefna nöfnum á pólitískum vettvangi var slíkur, að furðulegt mátti ætla að nokkrum manni dytti að mynda ríkisstjórn á slíku jarðsprengjusvæði.
Nú vitum við hins vegar að ekki finnst öllum þetta jafn galið. Talsmenn flokkanna sjálfa telja þetta greinilega hið besta mál.
Við þessu er bara eitt svar. Öflugur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn sendir þau öflugu skilaboð kjósenda að ekki komi til greina að mynda ríkisstjórn slíks tætingsbandalags. Kjósendur hafa svarað því skýrt - nú síðast í könnun Capacents Gallup - að þeir vilja ekki sjá Kaffibandalagið. Stuðningur þeirra er hins vegar mjög afdráttarlaus við að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Hin farsæla og vinsæla forysta Geirs H. Haarde er þjóðinni að skapi en forsenda þess að þjóðin njóti hennar áfram er öflugur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook