7.5.2007 | 23:01
Þjóðarviljinn komi fram í kosningunum
Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýtur yfirburðatrausts þegar spurt er í skoðanakönnun Capacent Gallups: Hvaða stjórnmálamanni treystir þú best til að gegna starfi forsætisráðherra á næsta kjörtímabili ? Athyglisvert er að styrkur Geirs vex á milli kannana á meðan staða annarra stjórnmálaleiðtoga verður ýmist lakari eða stendur í stað.
Staðan er þessi, og tölur úr könnun 8. til 13. mars eru í sviga:
Geir H. Haarde, 54,0% ( 42,4)
Ingibjörg Sólrún, 17,0% (17,5)
Steingrímur J. Sigfússon 14,6% (22,0)
Jón Sigurðsson 4,1% (4,7)
Guðjón A. Kristjánsson, 0,4% ( 0,8)
Þetta eru mjög afgerandi úrslit. Sá stjórnmálaleiðtogi sem næstur kemur Geir, er ekki einu sinni hálfdrættingur. Ingibjörg Sólrún er sem sé með stuðning 17 prósenta og stuðningur við Steingrím J. hrapar. Þjóðin er með öðrum orðum að hafna þvi að þetta fólk og flokkar þeirra séu í forystu ríkisstjórna.
Við sjáum líka í könnun Fréttablaðsins að almenningur vill fyrst og síðast að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn og hvað eftir annað hefur það komið í ljós að kjósendur vilja ekki sjá það að stjórnarandstöðuflokkarnir sitji saman við ríkisstjórnarborðið.
Til þess að vilji almennings gangi eftir þarf Sjálfstæðisflokkurinn öflugan og órofa styrk. Þannig verður hægt að bægja frá stjórnarmynstri sem fólkið vill ekki sjá. Við sjáum að himinn og haf skilur að vilja almennings og ásetning stjórnarandstæðinga. Almenningur vill að Sjálfstæðisflokkurinn sé í aðili að ríkisstjórn og að formaður flokksins leiði það ríkisstjórnarsamstarf. Stjórnarandstaðan er því ósammála og er því í hróplegri andstöðu við fólkið í landinu. Hún hótar okkur sífellt með Kaffibandalagi, sem hér um bil enginn annar vill sjá og ógnar okkur með því að Steingrímur J. eða Ingibjörg Sólrún eigi að leiða ríkisstjórnir þó almenningur sé á annarri skoðun.
Afdráttarlaus stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn getur einn stuðlað að áframhaldandi stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins undir forystu Geirs H. Haarde. Til þess stendur ríkur vilji þjóðarinnar og sá vilji þarf að koma fram i kosningunum 12. maí.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook