Þátturinn þar sem Steingrímur sneri aftur

Ásjóna fyrir hvert tækifæriSteingrímur J. varð minnisstæður þegar hann gagnrýndi fyrrverandi formann Framsóknarflokksins fyrir að hafa sett upp sparibros fyrir síðustu kosningar og dregið upp aðra mynd en þá sem blasti við eftir kosningar. Um þetta hafði hann hin stærstu orð og hraklegustu.

Nú rifjast þetta upp að nýju. Ekki vegna einhvers sem snýr að Framsóknarflokknum. Heldur vegna hins að sjálfur skipti Steingrímur J. um ham í sjónvarpsþætti Stöðvar 2 í kvöld, þar sem formenn stjórnmálaflokkanna voru í aðalhlutverki. Hin áferðarfallega mynd þess rólega formanns, sem dregin hefur verið upp samviskusamlega undanfarnar vikur, hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þess í stað brast á gamalkunnugur orðaflaumur æsts manns, sem var nauðalíkur þeim Steingrími sem við félagar hans úr Alþingi þekkjum svo vel úr ræðustólnum, þegar hann stendur þar æstur á góðum degi

Svo var komið að manni virtist orðinn óravegur frá þeim Steingrími J. sem flaumósa hrópaði að þáverandi forsætisráðherra að hann væri gunga og drusla svo ekki sé nú talað um þann Steingrím sem uppvís varð að því að bölva og ragna í þingsölum þegar honum rann í skap.

Hinn nýji Steingrímur hafði allt aðra ímynd; sú ímynd einkenndist af ró og yfirvegun. Ögmundur Jónasson var orðinn alveg eins. Sallarólegur, sléttur og felldur í sjónvarpsþáttunum. Þessi háttur virtist skila flokknum ágætu fylgi. Flokkurinn þeirra var orðinn að hástökkvara í skoðanakönnunum og mældist upp í 25 til 30% fylgi.

En nú er öldin orðin  önnur. Fylgið dalar dag frá degi og nú birtist nýr Steingrímur í kvöld. Öllu æstari en sá sem við höfum vanist síðustu vikurnar; hann er farinn að líkjast þeim Steingrími  J. sem menn muna úr ræðustólnum á Alþingi. Mótlætið í skoðanakönnunum fælir rólegheitayfirbragðið frá.

Sá gamli Steingrímur J. hefur því bersýnilega snúið aftur úr hinni sjálfskipuðu útlegð. Kunnugleg ímynd hefur tekið við af rólegheitayfirbragði auglýsingastofanna.

Minn gamla starfsbróður býð ég velkominn úr útlegðinni. Nú finnst mér ég kannast við kappann !




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband