11.5.2007 | 07:32
Þeir eru ósammála þjóðinni
Hvorki fleiri né færri en fernar skoðanakannanir munu birtast í dag, daginn fyrir kosningar. Helmingurinn hefur þegar birst og í gærkveldi birtist ein. Af því sem við höfum séð er bara eitt ljóst. Kosningaúrslitin eru fjarri því að vera ráðin. Allt getur í rauninni gerst. Enda ráðast kosningar ekki í skoðanakönnunum. Þær eru tæki sem félagsvísindi og tölfræði hafa búið til, svo nálgast megi aukna vitneskju um vilja kjósenda. Kosningarnar eru hinn lýðræðislegi og endalegi dómur um vilja fólksins í landinu.
Skoðanakannanirnar frá í gærkveldi og þær sem birtust nú í morgun gefa misvísandi mynd. En draga fram skýra kosti í rauninni. Það þurfum við að hafa í huga á morgun.
Staðan er þá þessi:
Eitt liggur fyrir. Í öllum könnunum sem hafa birst kemur fram afar skýr vilji til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn áfram. Þetta er mjög í samræmi við það sem við frambjóðendur flokksins verðum hvarvetna vör við. Fólk kemur til okkar á fundum, á vinnustöðum eða bara í erli dagsins og segir: Það er mjög mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn til þess að tryggja kjölfestu við landsstjórnina. Þetta eru ekki endilega stuðningsmenn flokksins. Maður mætir gallhörðum stuðningsmönnum annarra flokka sem segja þetta. Þeir vilja vitaskuld sinn flokk að stjórnarborðinu. En bæta svo við, en við viljum að Sjálfstæðisflokkurinn sé þar einnig, það tryggir farsæla stjórn.
Annað kemur líka glögglega fram. Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra nýtur gríðarlegs stuðnings og trausts almennings. Það finnur maður afar vel. Um þetta eru skoðanakannanirnar algjörlega sammála. Þær eru misvísandi um margt, en ekki það að Geir H. Haarde hafi yfirburðastöðu í samanburði við aðra stjórnmálaforingja. Á því ári eða svo sem hann hefur verið forsætisráðherra hefur hann áunnið sér þessa mikla trausts og það að verðleikum. Einnig þetta birtist okkur frambjóðendum á ferðum okkar um kjördæmin þar sem við hittum að máli stóran hóp fólks.
Eitt er hins vegar alveg jafn ljóst. Atkvæði greitt öðrum flokki en Sjálfstæðisflokknum eru ekki skilaboð um að flokkurinn fái aðild að ríkisstjórn. Ekki heldur skilaboð um að Geir H. Haarde leiði ríkisstjórn. Þótt þjóðin vilji að formaður Sjálfstæðisflokksins verði forsætisráðherra, vilja foringjar annarra flokka það ekki. Svo mikið er víst og það vitum við ofur vel. Þeir ætla sér sjálfum það sæti og eru þar algjörlega ósammála þjóðinni.
Þess vegna vil ég hvetja kjósendur til þess að hafa þetta í huga er þeir ganga að kjörborðinu á morgun.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook