20.5.2007 | 16:02
Reiðarslag
Uppsagnirnar í Kambi á Flateyri eru mikið reiðarslag fyrir byggðina og koma á óvart. Fyrirtækið hefur haldið úti mjög þróttmikilli starfsemi, keypt til sín aflaheimildir og leigt til sín aflamark. Það er vinnustaður fjölda fólks og skiptir miklu máli í samfélaginu öllu á norðanverðum Vestfjörðum. Þangað hefur fólk utan Flateyrar sótt vinnu og áhrifanna af starfsemi fyrirtækisins hefur því gætt víðar en á Flateyri einni.
Nú stöndum við frammi fyrir þessum veruleika. Vonir okkar eru bundnar við að sem mest af aflaheimildunum verði áfram til staðar á svæðinu. Við vitum að fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum hafa verið að afla sér aukinna veiðiréttinda og hafa að því leyti snúið neikvæðri þróun við. Það má því segja að Vestfirðingar hafi að undanförnu verið að njóta frjáls framsals aflaheimilda, þótt því hafi verið öfugt farið á árunum á undan. Sömu sögu er að segja um leigu aflaheimilda.
Ég hef verið spurður að samspili fiskveiðistjórnunarinnar og ákvörðunarinnar á Flateyri. Það er eðlilegt að spurt sé. Einmitt um þessi mál hafa umræðurnar um fiskveiðistjórnunarmálin snúist að talsverðu leyti undanfarin ár. Hvernig hægt sé að búa til úrræði fyrir byggðir þar sem fiskveiðiréttur er lítill, takmarkaður, eða hann hefur minnkað. Þetta er meginástæða þess að við fórum i gríðarlega harðan slag um fiskveiðistjórnarmálin fyrir nokkrum árum, með þeim afleiðingum að færður var til mjög umtalsverður fiskveiðiréttur frá stærri útgerðum til hinna smærri, frá stærri bátum til hinna smærri. Það blasir við að þetta skapaði minni byggðum, eins og til dæmis Flateyri, stóraukinn veiðirétt að nýju.
Við settum líka byggðakvóta í lög. Í vetur voru þau lög endurskoðuð og þeim breytt. Þannig breytt voru þau samþykkt samhljóða með atkvæðum allra alþingismanna. Það voru talsverð tíðindi, en vonandi segir það okkur þá sögu að í stjórnmálaflokkunum sé almennur vilji fyrir því að nýta fiskveiðistjórnunarkerfið meðal annars til úrræða fyrir byggðir sem búa við skertan fiskveiðirétt. Markmiðið var að gera byggðakvótann markvissari til þess að taka á vanda byggðanna. Ég vænti þess að það hafi tekist.
Línuívilnunin var einnig liður í þessu sama. Um sex þúsund tonn eru tekin frá til hennar. Það er ljóst að minni byggðirnar njóta hennar sérstaklega vel. Flateyri er til dæmis gott dæmi um byggðarlag sem hefur notið meiri veiðiréttar vegna línuívilnunar og er það sannarlega vel.
Það er þess vegna ekki rétt sem haldið er fram að menn hafi kært sig kollótta um hagmuni byggðanna. Þvert á móti. Við höfum gert okkur grein fyrir því að framsal aflaheimilda gæti haft neikvæð áhrif. Vestfirðingar hafa að vísu verið að uppskera meiri heimildir síðustu árin, en það breytir því ekki að dæmið frá Flateyri sannar að slíkt getur snúist við. Þess vegna þarf að byggja byggðarleg úrræði inn í fiskveiðistjórnarkerfið og það höfum við verið að gera.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook