Einhver missir?

StjórnarmyndunarviðræðurFurðulegt hefur verið að fylgjast með þeim sem hafa verið uppi með brigslyrði yfir því að ekki verði mynduð vinstri ríkisstjórn. Það er látið eins og tækifæri hafi gengið úr greipum vegna þess að vinstri stjórn verði ekki að veruleika núna. Þetta er skrýtið.

Er eftirsjá í þeim kosti að mynda vinstri stjórn? Hefur reynsla manna af margra flokka ríkisstjórn, með því mynstri sem vinstri stjórn kallast, verið sú að einhvern langi til að endurtaka það?

Ekki var það að heyra á kosninganótt eða á sólarhringunum sem í hönd fóru. Minni landsmanna er svo gott að allir geta rifjað upp svigurmælin sem gengu á milli og hefðu varla verið gott veganesti fyrir ríkisstjórnarsamstarf til fjögurra ára. Því það er einmitt kjarni málsins. Ríkisstjórnarsamstarf til fjögurra ára.

Við höfum reynsluna og hún er ólygnust. Margra flokka ríkisstjórn af vinstra tagi hefur aldrei lifað heilt kjörtímabil. Fyrr hefur hana þrotið örendið.

Öflug ríkisstjórn tveggja stærstu flokkanna verður í stakk búinn að takast á við þau brýnu verkefni sem bíða okkar í þeim breytilega heimi sem við lifum í. Slík ríkisstjórn byggir á trausti sem greinilega er að takast á milli flokkanna. Það er afskaplega mikilvægt.

Þess vegna er engin ástæða til þess að vera uppi með stóryrði eða brigsl. Athyglisvert er í þessu samhengi að lesa málefnaleg nálgun Björns Inga Hrafnssonar fyrrv. aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, sem er núna leiðtogi Framsóknarmanna í Reykjavíkurborg. Hann segir á heimasíðu sinni 19. maí síðast liðinn:

"Við framsóknarmenn eigum ekki að dvelja um of við ásakanir og vonbrigði vegna myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Vissulega eru mikil viðbrigði að fara í stjórnarandstöðu eftir tólf ára samstarf, en í því felast auðvitað allskonar tækifæri sem Framsóknarflokkurinn á hiklaust að nýta sér.

Nýrri ríkisstjórn fylgja auðvitað góðar óskir, ég vona að Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki auðnist að vinna landi sínu og þjóðinni gagn á næstu árum. Ég er hið minnsta staðráðinn í að veita henni öflugt og málefnalegt aðhald; hæla henni þegar vel er gert, en gagnrýna þegar það á við.

Í því er fólgin mikil breyting og áskorun fyrir mann sem um margra ára skeið hefur varið ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks af mikilli íþrótt. En tímarnir breytast og nú er flokkurinn minn utan landsstjórnarinnar."

Þetta eru ummæli sem vísa til framtíðar og eru eftirtektarverð í ljósi umræðu liðinna daga.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband