28.5.2007 | 23:07
Pólitísk hentugleikasjónarmið
Ekki er alltaf því fyrir að fara að menn séu samkvæmir sjálfum sér þegar kemur að því að gagnrýna hina nýju ríkisstjórn. Það er kannski ekki endilega við því að búast svo sem. Gagnrýnendur reyna að finna sér einhverja handfestu og þá er ekki endilega víst að eitt styðji annað. Allt eins tala menn út og suður og ná ekki alveg rökrænu samhengi.
Tökum tvö dæmi.
Sagt hefur verið að með því að Sjálfstæðisflokkurinn gangi til samstarfs við Samfylkinguna sé henni lyft til öflugri stöðu en áður. Þátttaka í ríkisstjórn gefi flokknum ný færi og það geti gefið honum möguleika á að fá aðra stöðu í hinni pólitísku umræðu. Þetta er ein tegund af röksemdafærslu.
Svo kemur að hinu. Þeir eru til sem telja að samstjórn Samfylkingar með Sjálfstæðisflokki geti orðið hinum fyrrnefnda að fjörtjóni. Það mætti ætla að þeir sem svona tala telji að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sé eins konar banvænt faðmlag. Um þetta hefur verið mikið skrifað á bloggum og víðar svo sem
Hvorugt er þetta nú rétt. Það er engin slík pólitísk nauðhyggja til. Það er ekkert sem leiðir til óhjákvæmilegrar niðurstöðu af því tagi sem hér er vikið að. Niðurstaðan af þessu ríkisstjórnarsamstarfi fyrir Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu ræðst vitaskuld af því hvernig til tekst og því hvernig flokkarnir verða dæmdir af kjósendum sínum. Það er ekkert sem óhjákvæmilega leiðir til þess að Samfylking eflist á kostnað Sjálfstæðisflokks, eða að hið gagnstæða gerist, eins og haldið er fram af sumum.
Ríkisstjórnin fer nú af stað með öflugan þingmeirhluta, vel rökstuddan stjórnarsáttmála og gott gagnkvæmt traust. Árangur beggja flokkanna af þessu stjórnarsamstarfi hefur því allar forsendur til þess að verða góður. Hrakspár eru því ekki líklegar til að rætast. Framundan eru mörg spennandi verkefni sem flokkarnir hafa orðið einhuga um að takast á við af fullum heilindum.
Maður finnur líka að stjórnarsamstarfið á góðan stuðning í flokkunum, eins og glögglega kom fram í þeim mikla einhug sem ríkti í stofnunum flokkanna þegar afstaða var tekin til stjórnarinnar.
Það segir hins vegar sína sögu að þær spásagnir og hrakspár sem uppi eru hafðar stangast svo gjörsamlega á. Þær byggjast því augljóslega fremur af pólitísku hentugleikasjónarmiði en nokkru öðru og eru algjörlega án nokkurs rökrétts samhengis, eins og allir menn sjá.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook