3.6.2007 | 22:59
Á Sjómannadag
Sjómannadagurinn er hvað sem öðru líður, ómetanlegur þáttur í lífi margra sjávarplássanna. Þar eru íbúarnir almennt virkir í hátíðarhöldunum og nánast hver verkfær maður mætir til leiks. Sums staðar hefur þetta orðið að nokkurra daga hátíðum sem skipta miklu máli fyrir byggðirnar og samfélög þeirra.
Því miður eru dæmi um að hátíðarhöld Sjómannadagsins hafi dregist saman á einstaka stað og jafnvel fallið niður. Það er mjög miður. Það er ástæða til þess að hvetja menn til dáða. Hátíðarhöld Sjómannadagsins eru svo einstæð að mikil ástæða er til þess að þau verði endurvakin þar sem þau hafa fallið niður og efld þar sem þau hafa farið fram með minni krafti en áður. Við eigum að stefna að því að Sjómannadagurinn verði hafinn til frekari vegs og virðingar þar sem þörf er á því, en sem betur fer eru hátíðahöldin víða um land kraftmikil og einstaklega skemmtileg.
Sjómannadagurinn er á vissan hátt hátíð, skerpir umræðuna um stöðu sjómanna og sjávarútvegsins í heild. En Sjómannadagurinn opnar fólki líka leið að sjávarútveginum sem ekki á þess kost að eiga dagleg samskipti við þessa undirstöðu atvinnugrein okkar. Þannig hefur Sjómannadagurinn í rauninni fræðslugildi, auk þess að vera skemmtilegur og að stuðla að aukinni samkennd íbúa og þess fólks sem í sjávarútvegi starfar.
Vel hefur tekist til við endursköpun Sjómannadagsins í Reykjavík með Hátíð hafsins. Við sjáum að þátttaka í dagskráratriðum er ótrúlega góð, þrátt fyrir að slæmt veður hafi sett sinn svip á hátíðarhöldin, síðustu tvö árin, en það eru einu skiptin sem ég hef verið í Reykjavík á Sjómannadaginn og það vegna ljúfra skyldustarfa minna sem sjávarútvegsráðherra.
Hátíðleg stund í kirkju í messu að morgni Sjómannadags er engu lík. Í morgun prédikaði ég í sjómannadagsmessu í Kópavogskirkju, þar sem starfsbróðir minn og félagi á Alþingi Sr. Karl V. Matthíasson messaði. Í fyrra flutti ég sömuleiðis prédikun í Hólskirkju í Bolungarvík. Sjómannadagsmessurnar eru víða vel sóttar og skipa þýðingarmikinn sess á Sjómannadaginn í sjávarbyggðum landsins.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook