24.7.2007 | 12:27
Fjölgun ferðamanna - fagnaðarefni ekki áhyggjuefni
Erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands fjölgar hratt og sjaldan eða aldrei sem núna. Hingað til hafa menn almennt talið þetta vera fagnaðarefni, en nú upp á síðkastið hafa einhverjir sett spurningamerki við þessa þróun. Spurt er hvort landið og íslensk náttúra ráði við þennan straum ferðamanna, hvort innri mannvirki okkar séu í færum til þess að glíma við þennan stóra hóp og svo framvegis.
Þetta eru óþarfa áhyggjur. Við getum auðveldlega ráðið við fyrirsjánlega fjölgun ferðamanna. Landið okkar býður upp á svo marga möguleika og er svo víðlent og strjálbýlt að við eigum ekki að líta á það sem vandamál að fólk sæki hingað sem ferðamenn. Verkefni okkar er bara að sjá til þess að þessi fjölgun gagnist sem flestum og byggðirnar sem víðast njóti ávaxtanna.
Fjölgun ferðamanna hefur verið ævintýraleg síðustu árin. Það lætur nærri að fjöldi ferðamanna hafi nær tvöfaldast á áratug, nú síðustu tvo áratugina. En í rauninni er ferðaþjónusta sem atvinnugrein ótrúlega ný af nálinni. Fyrir 50 árum voru erlendir ferðamenn sem hingað komu innan við 10 þúsund. Nú eru þeir um 400 þúsund. Miðað við reynslu síðustu ára má ætla að stutt sé í að þeir fari yfir hálfu milljónina.
Ferðamálaráð og nú Ferðamálastofa hafa fylgst grannt með þessum málum. Skoðað var sérstaklega á sínum tíma, hvort fjölsóttustu ferðamannastaðirnir réðu við þann fjölda sem þangað kom. Svarið var já. Við sjáum það enda erlendis að auðvelt er að taka á móti fjölda fólks á einstaka stöðum. Hins vegar er þá nauðsynlegt að skapa aðstöðu og það hefur verið gert hér á landi fyrir atbeina ferðamálayfirvalda. Þetta hefur tekist vel, verið gert af metnaði og skipulag fjölsóttra ferðamannastaða gert þannig úr garði að átroðningur verði sem minnstur.
Hitt verkefnið er síðan að tryggja dreifingu ferðamannastraumsins um landið. Það er eðlilegt að hið opinbera stuðli að því, rétt eins og við byggingu annarra slíkra innri mannvirkja samfélagsins. Þannig ráðum við auðveldlega við frekari fjölgun ferðamanna, opnum aðgengi að aukinni fjölbreytni - og síðast en ekki síst; tryggjum að uppbygging hinnar sívaxandi atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar verði úti um hinar dreifðu byggðir. Á vegum Ferðamálasstofu hefur einmitt verið unnið að því að stuðla að dreifingu ferðamannastraumsins, með því að byggja upp aðstöðu og opna aðgengi fyrir ferðamenn víðar um landið. Landið okkar er víðlent og þolir auðveldlega aukinn ferðamannastraum.
Fjölgun ferðamanna hingað til lands er því fagnaðarefni, ekki áhyggjuefni.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook